143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að fjalla um þetta mál. Mig langaði að spyrja þingmanninn um ákveðið ferli og hvort það hafi lagast því að ég hef tekið eftir því að hvort sem fyrir liggur umhverfismat eða ekki þá fara orkufyrirtækin mjög oft inn á svæði með tilraunaboranir eða einhvers konar tilraunavinnslu, valda miklu raski og svo er alltaf viðkvæðið: Það er hvort eð er svo mikið rask þannig að umhverfismatið skiptir engu máli.

Mig langar að spyrja: Er eitthvað í þessari reglugerð sem fyrirbyggir slíkt? Er eitthvað sem skerpir í raun og veru á ábyrgðinni og þeim vafa sem náttúran á að fá að njóta? Eru einhver viðurlög við því að fara á skjön við settar reglur?

Mér sýnist að í þessum málaflokki hafi lítið breyst. Það var rætt einmitt í dag í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra um ástandið við Hellisheiðarvirkjun. Þar var ákveðið að fara eins ódýra leið og hægt væri varðandi mengun. Það kemur náttúrlega ekki bara mjög illa niður á umhverfinu þar í kring heldur hefur fólk orðið fyrir miklu heilsutjóni í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu.

Er eitthvað í þessu frumvarpi sem hjálpar okkur að viðhalda lögum og reglum í landinu?