143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er með sanni ánægjuleg þróun að maðurinn og manneskjan sé að gera sér grein fyrir því að tilveruréttur okkar í náttúrunni hlýtur að lúta að því að við séum ekki náttúrulaus. Ójafnvægi hefur að sjálfsögðu gríðarlega mikil áhrif á manneskjur og aðrar verur í dýraríkinu og náttúrunni og ef gengið er á eitthvað sem við mannfólkið höfum skilgreint sem auðlind.

Mér hefur fundist það vera svo skringilegt að það er eins og margir álíti að þetta hafi engin áhrif á okkur og þá sem búa í nærumhverfi eins og varð raunin við Kárahnjúka þegar Hálslón var búið til. Við höfðum mörg spáð miklum varanlegum umhverfisáhrifum á Lagarfljót og verstu spár urðu að veruleika. Það sem ég hef áhyggjur af er að fólk átti sig ekki á þessu fyrr en það er of seint. Það er alltaf gripið til ráðstafana þegar það er orðið of seint.

Mig langaði, fyrst ég er nú búin að fá svör við því sem ég var að spyrja um, að fagna því að almenningur hérlendis virðist vera að vakna. Félagsmönnum hefur t.d. fjölgað gríðarlega hjá Landvernd. Þeir voru 500 og eru um 2 þúsund núna. Það kom fram í þessari viku. Mér finnst það jákvæð tíðindi og vonandi þýðir það að við getum verið með betra aðhald og að umhverfisáhrif og umhverfismat verði í betra samræmi við það sem ég er sannfærð um að næstu (Forseti hringir.) kynslóðir hefðu viljað að yrði metið náttúrunni í vil.