143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að endurflytja að mestu frumvarp til breytingar á lögum frá árinu 2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, um framkvæmdir o.fl., mál sem var flutt af fyrri ríkisstjórn og dagaði uppi. Það hefur orðið umræða um hvers vegna slík mál dagaði uppi og hvers vegna við erum ekki búin að innleiða nema um 2/3 af þeim skuldbindingum eða lögum með innleiðingum sem okkur ber samkvæmt samkomulagi um EES. Stundum hefur maður velt því fyrir sér að miðað við framgönguna á síðasta kjörtímabili sé það kannski að mestu leyti vegna þess að menn hafa jafnvel verið að taka slík mál í gíslingu og tafið þau og þegar verið er að ljúka málum í lok þings á hverjum tíma, jafnvel þótt full sátt sé um þau, er þeim hent út af borðinu með tilheyrandi vinnu fyrir bæði ráðuneyti, umsagnaraðila og alla þá sem þurfa að fjalla um málið að nýju á þinginu á eftir.

Það leiðir hugann að því að kannski er löngu kominn tími til þess að ekki þurfi að endurflytja mál sem koma inn í þingið heldur fari þau sjálfkrafa yfir á milli þinga innan kjörtímabilsins, þannig að menn geti aukið skilvirknina í afgreiðslunni hjá þinginu.

Innihaldið í þessum lögum er í meginatriðum að verið er að breyta í samræmi við kröfur og athugasemdir sem hafa komið frá ESA varðandi þennan málaflokk. Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmdir sem undir lögin falla verði flokkaðar í þrjá flokka í stað tveggja áður. Það er flokkur A sem í falla framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt gildandi lögum og falla þar undir í 1. viðauka með lögunum. Í flokki B falla framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum og falla þar undir 2. viðauka laganna. Svo kemur flokkur C sem í falla framkvæmdir sem hingað til hafa fallið utan við viðmiðunarmörk laganna en er nauðsynlegt í ljósi athugasemda ESA að fella undir lögin. Með þessu fylgir listi.

Í greinargerð með frumvarpinu undir Mat á áhrifum á bls. 22 stendur, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum hefur það í för með sér að fleiri framkvæmdir verða tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu heldur en er samkvæmt núgildandi lögum. Það mun leiða til upplýstari ákvarðanatöku um fleiri framkvæmdir hvað varðar áhrif á umhverfið. Einnig mun það gefa almenningi aukin tækifæri til að afla sér upplýsinga um fleiri framkvæmdir en verið hefur þar sem ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar er auglýst og því verða fleiri framkvæmdir auglýstar en verið hefur.“

Það er auðvitað hægt að taka heils hugar undir að þetta er mikilvægt og þarna fáum við til okkar í gegnum EES-samninginn frá Evrópusambandinu hertar kröfur í sambandi við umhverfismat. Á sama tíma kalla þær auknu kröfur, sem ég tel vera jákvæðar, á ýmsar aðrar breytingar. Í fyrsta lagi vil ég nefna að það skiptir gríðarlega miklu máli að þeir aðilar sem maður ætlast til að standi vaktina í þágu umhverfis standi vaktina varðandi þær kröfur sem gera þarf í hverju umhverfismati, fái nægileg tæki til að geta keppt við stórfyrirtæki, sveitarfélög eða ríkið varðandi umsagnir fyrir umhverfismat. Þá er ég að tala um opinber félög eins og Náttúruverndarsamtök Íslands og fleiri aðila en hvað varðar sveitarfélögin þarf líka að horfa til íbúasamtaka sem þurfa að eiga möguleika á að fara með gagnrýnum augum yfir þær tillögur sem liggja frammi, meta þær og koma með athugasemdir og ábendingar eða eftir atvikum stuðning, að sjálfsögðu, vegna þess að það er ekki alltaf svo að umhverfismat feli endilega í sér gagnrýni á það sem á að fara að framkvæma. Mér finnst skipta máli að menn hugi að því og mér finnst jákvætt við þetta lagafrumvarp að auka eigi aðgang almennings að upplýsingum í ferlinu þannig að samtökum, einstaklingum og íbúasamtökum sé gert þetta auðveldara. Á sama tíma þurfa aðilarnir auðvitað að hafa fjármagn til að geta sinnt því hlutverki.

Ég var að skoða hvað fellur undir flokkana, í hvaða flokk ýmsar framkvæmdir falla. Í ákvæði í 12. gr. er talað um flokkun framkvæmda og merkt við hvert og eitt atriði, hvort það fellur undir A, B eða C og eru hörðustu kröfurnar í A-flokki. Það er áhugavert að sjá eitt af þeim atriðum sem komu inn í umhverfismat fyrir nokkrum árum sem voru vegaframkvæmdir og mjög hertar reglur hvað það varðar. 10. liður í þessari flokkun framkvæmda heitir Grunnvirki. Það kemur fram í lið 10.7 að undir þetta falli nýir tveggja akreina vegir með framúrakstur sem rein og vegir með fjórar akreinar eða fleiri og er það í A-flokki. Síðan koma nýir vegir sem eru 10 kílómetrar eða lengri, endurbygging vega þar sem samanlögð nýlagning utan eldra vegasvæðis eða breikkun úr tveimur akreinum í fjórar eru a.m.k. 10 km á lengd. Þýðir þetta að raun fari eingöngu í A-flokk stórframkvæmdir af þeim stærðum þar sem verið er að fara í 2 + 2 eða a.m.k. þriðju akrein vegna framúrakstursakreina á lengri köflum?

Liður 10.10 segir að nýir vegir og endurbyggingar vega sem ekki eru tilgreindir í þessum tveimur töluliðum, og raunar þremur því að talað er um um 10 kílómetra og nýjar akreinar í þéttbýli, séu felldir í flokk C. Ég verð að viðurkenna vanþekkingu mína á því hvað það þýðir. Mér hefur sýnst að menn hafi farið með vegarstæði, m.a. á þekktum leiðum eins og í Teigsskóginum á sunnanverðum Vestfjörðum á Vestfjarðavegi 60, þar hafa menn verið í hörðum deilum um vegarstæði og um möguleika á því að komast þar í gegn og hvort það stangist á við umhverfismat sem var gefið en síðan fór það í dómsmál og tvisvar sinnum hefur verið dæmt í rétti um þetta vegarstæði án þess að fjalla um ágreiningsefnið sem er náttúruverndargildi sjálfs skógarins. Þegar þetta fór í gegnum Hæstarétt, ef ég man rétt, ég skal viðurkenna að ég er ekki með gögnin með mér, sótti Vegagerðin um að fá heimildina til að fara þá leið, B-leið sem kölluð var, á þessu svæði á þeim forsendum að þetta væri spurning um umferðaröryggi þeirra sem bjuggu á svæðinu og í Vesturbyggð og þar í kring, að það væri umferðaröryggisspursmál að vegurinn fengi að vera láglendisvegur og þar af leiðandi þyrfti að leggja hann í gegnum þetta svæði.

Málinu er hafnað vegna þess að það er ekkert í lögum um umhverfismat sem gerir ráð fyrir því að umferðaröryggi sé metið. Það er atriði sem ég óska eftir að menn taki sem fylgifisk í gegnum þetta frumvarp, að skoða hvort það eigi ekki að vera, vegna þess að mér brá svolítið við þá gagnrýni sem kom frá íbúum Vesturbyggðar þegar menn sögðu beint út: Er umhverfismat eingöngu til að vernda allar aðrar dýrategundir en manninn, þ.e. að verja vistkerfið en ekki réttinn til að geta búið á ákveðnum svæðum og ferðast þar fram og til baka, að og frá ákveðnum byggðakjörnum? Mikilvægt hefði verið að fá mat á því hvort náttúrugildi þessa svæðis væri þannig að óafsakanlegt væri að fara með vegarstæði þar í gegn. Það hefur komið í umhverfismat en hefur ekki verið staðfest fyrir dómstólum vegna þess að það hefur alltaf fallið á einhverjum öðrum dómsatriðum.

Þetta leiðir svo hugann að öðru sem tengist þessu og er að til að geta komið til móts við þær auknu kröfur í umhverfismati, sem ég tel réttlætanlegar, ég tel það rétt sem kemur fram í frumvarpinu, þurfa menn líka að fara að vanda sig að vinna með miklu meira langtímasjónarmið m.a. í vegagerð, að það liggi fyrir hvar á að leggja vegi og að vegagerðin hafi burði til þess og stuðning, að hægt sé að vinna málið mjög vel frá fyrstu stigum, hvort sem eru samningar við landeigendur eða umhverfismat. Það er oft verið að afgreiða þetta í miklum flýti og þar með verða (Forseti hringir.) deilur hvað það varðar.

(Forseti (KLM): Forseti vill grípa inn í ræðu hv. þingmanns þar sem hann sér að það eru 5 mínútur eftir en forseti hefur fengið beiðni um að veitt verði andsvör við ræðunni. Forseti biður því hv. þingmann um að fresta ræðu sinni. Hann á 5 mínútur eftir því að nú á að fresta þessum fundi.)

En vill hæstv. forseti ekki að ég ljúki ræðunni og andsvörin komi eftir matarhlé?

(Forseti (KLM): Nei, við viljum frekar hafa þann hátt á að það séu ekki bara andsvörin sem eru eftir.)

Þá fresta ég síðari hluta ræðunnar að beiðni hæstv. forseta.