143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða kemst loks að hér í störfum þingsins. Það er nokkuð síðan ég bað um hana, einfaldlega vegna þess að svo alvarlegar fréttir hafa borist af því hvernig búið er að hafrannsóknum okkar á þessu ári að ég held að það sé óumflýjanlegt að Alþingi taki það til skoðunar.

Eftir umtalsverðan samdrátt opinberra framlaga til hafrannsókna, eins og flestur annar ríkisrekstur hefur þurft að sæta undanfarin ár, er nú svo komið að Hafrannsóknastofnun hefur nýtt upp allar áður ónýttar fjárheimildir sínar. Samtímis hefur það gerst að samfara fallandi ríkisframlagi, og það á við um árið í ár, hafa styrkir frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins dregist mjög saman enda er sá sjóður nú orðinn fjárvana. Tekjur vegna selds afla hafa minnkað og olíuverð verið mjög hátt undanfarin ár.

Þetta hefur leitt til þess að sú viðleitni undanfarinna ára að halda sjó í hafrannsóknum og halda svipuðu úthaldi skipa gengur ekki upp í ár. Reyndar var stofnunin rekin með halla í fyrra og gerir það stöðuna ekki betri.

Ég tel að nú stefni í að við lendum niður fyrir ásættanleg mörk í sjálfri kjarnastarfseminni á þessu sviði. Búið er að segja upp hluta áhafnar á öðru rannsóknaskipinu, Bjarna Sæmundssyni. Áætlanir standa til að leggja skipinu í sumarbyrjun, strax eftir vorleiðangur til að meta ástand sjávar og framleiðni sjávar. Ekki verður farið í árlegan leiðangur til stofnmælinga á úthafsrækju í sumar. Aðeins tvö skip voru leigð í vorrallið síðastliðið vor og verði rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni lagt mun það væntanlega ekki taka þátt í haustrallinu heldur.

Þetta er mjög alvarleg staða og allir sem einhverja nasasjón hafa af rannsóknastarfi vita hversu alvarlegt það er og dýrkeypt ef mælingarseríur taka að slitna í sundur og eyður skapast í þær gagnaraðir sem sjálft stofnstærðarmatið byggir á.

Þá vil ég líka inna hæstv. ráðherra eftir áformum um endurnýjun á rannsóknaskipi. Á síðasta kjörtímabili var það rækilega skoðað og skýrslur gerðar um ástand Bjarna Sæmundssonar, eldra skipsins, sem reyndar er vel yfir 40 ára ef minni mitt svíkur ekki. Þær leiddu skýrt í ljós að það væri bæði ákaflega kostnaðarsamt og slæm ráðstöfun fjármuna að fara í dýrar endurbætur á skipinu til þess eins að lengja líftíma þess mögulega um nokkur ár.

Niðurstaðan var því sú að ekki væri um annað að ræða en að hefja undirbúning að byggingu nýs skips með það að leiðarljósi að sjálfsögðu að við Íslendingar getum ekki sætt okkur við minna en að gera út að minnsta kosti tvö fullbúin rannsóknaskip.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður því máli? Byggingarnefnd eða undirbúningsnefnd var skipuð á síðasta kjörtímabili og hófst handa um venjulegan undirbúning að því að velja skip og undirbúa hönnun þess.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Eru ekki einhverjir möguleikar til þess að bæta við fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar í ár? Mér sýnist fljótt á litið að vanti 350–400 millj. kr. í rekstrarfé til stofnunarinnar á þessu ári þannig að hægt sé að halda sæmilega sjó. Ekki síður er áríðandi að vita hvað standi til á árinu 2015. Þá stefnir í enn verra ástand ef ekki verður einhver úrbót hér á.

Ég minni á í þessu sambandi að hið almenna veiðigjald var stillt af af Alþingi á síðasta kjörtímabili miðað við það að mæta öllum beinum kostnaði ríkisins vegna hafrannsókna og stjórnsýslu við sjávarútveginn. Vígstaða stjórnvalda er því ekki sterk hvað það varðar að draga svo mjög úr fjárveitingum til málaflokksins að ekki sé hægt að halda uppi lágmarksrannsóknum.

Veruleikinn er sá að þvert á móti þyrftum við Íslendingar, miðað við okkar aðstæður og okkar ríku hagsmuni sem tengjast auðlindum hafsins, að efla starfsemina á þessu sviði þessi árin. Nóg er um það talað, allar breytingarnar í lífríkinu, möguleikana sem kunna að vera að opnast á norðurslóðum o.s.frv. Við þyrftum ekki síst að einbeita okkur núna með efldu starfi að þeim miklu breytingum sem eru að verða á hitastigi sjávar, á göngumynstri fiskstofna, og að rannsóknum á súrnun hafsins og afleiðingum hennar o.s.frv. Ég vil þá líka minna á að það kann að reynast hættulegt þjóðréttarlegri stöðu Íslands í þessum efnum ef auðvelt er að sýna fram á utan frá að við hefðum ekki sinnt okkar skyldum í þessum efnum nægjanlega vel.

Ég er ekki að taka þessa umræðu upp til að veitast sérstaklega að núverandi hæstv. ráðherra. Hér er að sjálfsögðu við vanda að glíma sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarin ár. (Forseti hringir.) Það sem hefur gert okkur kleift að takast á við hann er að fjármunir voru til í ónýttum fjárheimildum og í Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Það (Forseti hringir.) gerði að verkum að hægt var að halda sjó. Nú eru þeir fjármunir ekki lengur til og þá verða stjórnvöld, ríkisstjórn og fjárveitingavald, að horfast í augu við það að við þurfum að bregðast við.