143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sérstaklega fyrir að taka þetta grafalvarlega mál hér upp. Sömuleiðis þakka ég hæstv. ráðherra fyrir góðan vilja. Ég efast ekki um að hann muni beita skriðþunga sínum til þess að reyna að efla samstöðu á Alþingi til að tryggja góða starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Það er hins vegar þannig að um stofnunina gildir allt annað en aðrar stofnanir. Það vill svo til að hún er í reynd grundvöllur undir því að okkur geti tekist með sómasamlegum hætti að nýta þær auðlindir í hafinu sem eru í reynd það sem þessi þjóð meira og minna byggir afkomu sína á.

Fjársvelti gagnvart Hafró getur kostað hið opinbera stórar upphæðir. Við höfum alltaf byggt veiði okkar á vísindalegri ráðgjöf og við höfum jafnframt brýnt og jafnvel sett inn í lög að vísindamenn okkar eigi að gæta ýtrustu varfærni. Ef það er svo að ekki liggi fyrir nægjanlega góðar og grundaðar upplýsingar um helstu stofna okkar getur það að sjálfsögðu leitt til þess að þeir byggi veiðiráðgjöf sína út frá ýtrustu varúð þannig að í reynd verði niðurstaðan sú að við veiðum minna en stofnarnir þola. Við vitum líka að einstaka stofnar eru svo sveiflukenndir að það kann vel að vera að í sumum tilvikum, ég gæti nefnt dæmi um það, muni ónógar rannsóknir leiða til þess að við skjótum yfir.

Þetta er hættuleg staða. Ég veit að margir samverkandi þættir valda henni. Hæstv. ráðherra hefur lofað því að beita sér fyrir aukningu en hún er algjörlega nauðsynleg fyrir okkur og stofnunina. Annað er hættulegt fyrir okkar málstað sem byggir á sjálfbærni og það er hún sem selur sjávarafurðir okkar.

Það er hættulegt ef til dæmis raskast mikilvægar tímaseríur í hafinu. Eitt af því sem hæstv. ráðherra tók hér upp vil ég sérstaklega taka undir, súrnun hafsins er vandamál, meira vandamál fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir. Í því fjársvelti sem núna er mun okkur ekki takast að (Forseti hringir.) vinna þær grunnrannsóknir sem við þurfum til að geta sannfært aðrar þjóðir um að taka þar á með okkur.