143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:47]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, ég þakka þá umræðu sem hér fer fram og þær upplýsingar sem þegar hafa komið fram. Ég held að við verðum að horfast í augu við vandann varðandi Hafrannsóknastofnun. Við missum til dæmis af haustrallinu sem er í hættu. Haustrallið er mjög mikilvægt vegna þess að mat á sjálfbærni sjávarafurða og vottun þeirra er mikilvægt fyrir vaxandi eftirspurn á mörkuðum sem gera kröfur um sjálfbærni veiðanna. Ég hef líka áhyggjur af nýjum stofni eins og makrílnum, hann þarf miklar rannsóknir. Á þessu ári eru ætlaðar 150 milljónir í þær. Loðnuúthaldið er búið, það er ekki útlit fyrir að það verði farið í loðnurannsóknir í haust en þær eru þó afar mikilvægar eins og staðan er á loðnustofninum. Breyttar aðstæður í sjónum kalla einnig á auknar rannsóknir svo við skiljum hvað er að gerast í hafinu í kringum okkur.

Það eru engar rannsóknir í fjölmörgum nýjum tegundum sem skapa tækifæri, miðsjávartegundum eins og gulldeplu og laxasíld svo dæmi séu tekin um stofna sem eru tækifæri framtíðarinnar. Við þurfum að nýta tækifærið og rannsaka þær tegundir. Flatfiskur, skötuselur, steinbítur, hlýri og fleiri mikilvægar tegundir eru ekki rannsakaðar. En þrátt fyrir allt stendur Hafrannsóknastofnun sig vel. Hún veitir vandaða ráðgjöf sem getur auðvitað verið umdeilanleg, það er eðli vísindarannsókna að þær séu umdeilanlegar, en við þurfum að auka fjármagnið til rannsókna ef nokkur möguleiki er því að nýjar tekjur af sjávarútvegi eru eins og óvænt bankabók. Að þeirri bók hefur Hafrannsóknastofnun ein lykilinn.