143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:52]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þessa umræðu. Hlutverk Hafrannsóknastofnunar sem stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og fiskirannsókna er án nokkurs vafa gríðarlega mikilvægt fyrir íslensku þjóðina þar sem sjávarútvegur er ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Ljóst er að framlög til ríkisstofnana hafa dregist saman á hverju ári frá 2009. Engu að síður hefur verið leitast við að verja Hafrannsóknastofnun, sérstaklega í ljósi mikilvægis hennar í því að stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskstofna okkar. Augljóst er að Verkefnasjóður sjávarútvegsins hefur verið nýttur frá 2008 til að halda uppi framlögum til hafrannsókna, tekjur hans hafa farið lækkandi og ekki er áfram hægt að verja stofnunina í gegnum sjóðinn. Leita þarf annarra leiða.

Staðreyndin er sú að enn þarf að horfa til betri nýtingar á fjárframlögum til stofnunarinnar en það liggur fyrir að sameining Hafró og Veiðimálastofnunar eykur nokkuð samlegðaráhrif og tækifæri í rekstri.

Líklega er úthald dýrasti þáttur rekstrarins þar sem kostnaðarsamt er að gera út skip til rannsóknarleiðangra en í ár hafa stofnuninni verið veittar auknar aflaheimildir til að tryggja framkvæmd haustrallsins. Í gegnum útboð er möguleiki á aukinni samvinnu við sjómenn og nýtingu þar til hæfra skipa til rannsókna. Þessi leið er klárlega hluti af því að nýta fjármuni betur og stuðla að því að stofnunin hafi burði til þess að sinna hlutverki sínu betur sem er meðal annars að stunda rannsóknir á hafinu og lífríki þess, miðla upplýsingum til stjórnvalda og hagsmunaaðila og almennings.

Það er fagnaðarefni að ráðherra leggi áherslu á ætlun sína að beita sér fyrir því að rekstrargrundvöllur stofnunarinnar verði áfram tryggður og það er verkefni þingsins að leggja sitt af mörkum til að það endurspeglist í fjárlögum.