143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki þarf að efast um að það efnahagshrun sem við lentum í árið 2008 hefur auðvitað haft afleiðingar víða í samfélaginu. Sá þáttur sem við tölum um í dag er einn af þeim sem það hefur haft áhrif á eins og annars staðar í ríkisrekstri.

Mikilvægi rannsókna og þeirrar stöðu sem við höfum komið okkur í er gríðarmikið. Við erum að tala um grunnatvinnuveg þjóðarinnar. Þrátt fyrir að vissulega hafi aðrar atvinnugreinar komið sterkar inn á síðustu árum og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar sé orðin fjölbreyttari en áður var er hér eftir sem áður um að ræða mikilvægustu atvinnugrein landsins. Grundvöllur hennar er rannsóknastarf. Við höfum á alþjóðavettvangi getið okkur mjög gott orð fyrir stjórn okkar í sjávarútvegsmálum sem við byggjum alla á þeim niðurstöðum sem koma á rannsóknum meðal annars Hafrannsóknastofnunar.

Þannig er það viðurkennt á alþjóðavettvangi, þegar Ísland tekur til máls um sjávarútvegsmál er á okkur hlustað. Það er mjög áberandi og það er það orðspor sem við höfum unnið okkur.

Við verðum að leita allra leiða til að halda þeim föstu liðum í starfsemi Hafrannsóknastofnunar sem skapa miklar grunnrannsóknir fyrir okkur, eins og þessi röll sem um er að ræða, og að við höldum áfram með þessa mikilvægustu stofna okkar, að setja þá í forgang. Við þurfum að leita hagræðingar á þeim vettvangi eins og öðrum. Ég held að aukin nýting, jafnvel á okkar öfluga fiskveiðiflota, samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki, hvort sem það gerist með útboðum eða samningum, sé eitthvað sem eigi að skoða. Við hljótum þó að líta öll á þetta sem tímabundið ástand. Við getum ekki (Forseti hringir.) látið þennan þátt drabbast mjög niður.