143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. alþingismenn að gera sér einfaldlega grein fyrir þeim vatnaskilum sem eru að verða á þessu ári. Það hefur tekist að halda sjó og stofnunin hefur staðið sig afburðavel í því að mínu mati. Það er rétt að það komi fram að þrátt fyrir þröngan fjárhag hefur hún undanfarin ár yfirleitt alltaf verið rekin innan heimilda en nú eru að verða vatnaskil; þau að úthald skipanna fari úr þeim 330–340 dögum á ári sem tekist hefur að halda úti undanfarin ár jafnvel niður fyrir 200 daga, að í fyrsta sinn verði gripið til beinna uppsagna og það fækki jafnvel um tíu ársverk á stofnuninni í viðbót við það að mörg undanfarin ár hefur ekki verið hægt að ráða nýtt fólk inn á stofnunina og enginn verið ráðinn í stað þeirra sem hættu.

Þá kemur annar vandi upp og önnur eyða fer að myndast sem er sú að ekki hafa verið ráðnir inn til stofnunarinnar nýir og ungir menntaðir vísindamenn í upp undir áratug. Það er líka mjög hættulegt. Þá kemur eyða í fleira en rannsóknargögnin, líka í aldurssamsetningu starfsmanna.

Hafrannsóknirnar eru að mínu mati einhver mikilvægasta undirstöðustarfsemin sem fyrirfinnst í þessu landi. Ég hélt að það væri engin deila um það, þetta bara er svona næst á eftir því að reka björgunarþyrlurnar, einfaldlega vegna þess að það er svo gríðarlega þjóðhagslega mikið sem hér er undir.

Af því að loðnurannsóknir eru nefndar höfum við glæný dæmi í höndunum um það hversu svakalega dýrt það gæti reynst að sleppa annaðhvort haustmælingunni eða vetrarmælingunni og treysta bara á mælingu að hausti. Árið 2012 mældist veiðistofninn yfir 100 þús. tonnum stærri í vetrarmælingunni og hægt var að auka kvótann sem því nam; 5–7 milljarðar í viðbót inn í þjóðarbúið í útflutningstekjum þannig að það getur verið hræðilega dýrt að spara hér of mikið.

Ég heiti því á hæstv. ráðherra og þingmenn að taka það til skoðunar (Forseti hringir.) að gera betur við starfsemina á þessu ári. Ég er sannfærður um að þegar mönnum verður ljóst að hún er verri en menn reiknuðu með þegar fjárlög voru afgreidd, vegna þess hvernig sértekjur stofnunarinnar eru að falla, verði hér vilji til að koma eitthvað til móts við starfsemina með aukafjárveitingu innan ársins.