143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[14:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég gríp niður í ræður þingmanna láðist mér að svara einni spurningu hv. þingmanns varðandi nýtt skip og vildi bara segja að það mál er í farvegi. Við takmörkuð fjárráð ríkisins þarf að forgangsraða og til þess að fara í nýsmíði þarf að finna verulegt fé, en hér stöndum við frammi fyrir verkefni og ég er ánægður með að heyra tóninn í þingmönnum og að þeir hafi fullan skilning á því að aukið fé þurfi til hafrannsókna.

Það er líka ljóst, eins og kom fram í ræðu minni, að þótt verið sé að fjármagna haustrallið með öðrum hætti er kannski ekki einasta verið að horfa til fjármögnunar heldur líka til þess að það er nauðsynlegt í starfsemi stofnunarinnar að auka samstarf sitt við háskólasamfélagið meðal annars og við útgerðina. Það er ekki einungis til þess að fjármagna verkefni heldur til að breikka svolítið starfssviðið og víkka, draga inn áhugasvið ungra vísindamanna í háskólasamfélaginu þannig að við fáum endurnýjun, kannski meiri endurnýjun en við höfum fengið á undanförnum árum. Ég held að það sé mjög þarft.

Það verður auðvitað að segjast eins og er að á föstu verðlagi ársins 2014 lækkuðu fjárveitingar síðastliðinna fimm ára frá ríkinu um 700 millj. kr. milli ársins í fyrra og í ár eru það um 50 millj. kr. Þetta er orðin nærri 30% lækkun á fjárveitingum á föstu verðlagi frá árinu 2007. Það segir sig sjálft að það þarf að grípa þar inn í.

Varðandi þau verkefni sem eru augljóslega grunnverkefni Hafrannsóknastofnunar treysti ég forstjóra og starfsmönnum stofnunarinnar til að forgangsraða þannig að þeim sé sinnt fyrst og fremst. En það er komið að ákveðnum þolmörkum og ég heyri andann hér í þinginu og treysti því að hann haldi allt til þess að við klárum fjárlög fyrir árið 2015. Ég þakka fyrir þessa umræðu.