143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er fróðlegt að skoða þennan lista. Ég held að ákveðin framsýni sé til dæmis í því að undir heitinu grunnvirki er tekið fram að það sé umhverfismatsskylt ef leggja á járnbraut um langar vegalengdir, það er í flokki A. Ég veit ekki hvort menn eru svo framsýnir að við séum að fara í þær framkvæmdir, en eins og hv. þingmaður kom inn á er þetta unnið miðað stærra umhverfi og á að taka af allan vafa hvað er umhverfismatsskylt.

Varðandi það hvað var afgreitt og hvað ekki, ég held að það hafi verið tilviljun meira en nokkuð annað. Það var engin fyrirstaða. Það var bara spurningin um að einhver ákveðin mál fengju að fara í gegn, menn voru komnir í tímaþröng og þá var þeim lokið og menn sátu eftir með 10, 20, 30 mál sem voru afgreidd í fullkominni sátt úr nefndum eftir mikla vinnu en komust ekki alla leið til afgreiðslu á þinginu.

Varðandi áhrifin á EES-gjörðir hefur komið fram og það hefur verið rætt með núverandi ríkisstjórn hvernig megi koma betur að þeim málum. Það er svolítið kómískt að fylgjast með að á sama tíma og menn vilja ekki ræða og klára ESB-umsóknina og meta stöðu okkar út frá því þá eru menn búnir að setja inn Evrópustefnu sem felur í sér að auka mjög mannafla og tengsl við Evrópusambandið til að reyna að hafa áhrif á það sem þar er samþykkt. Sjálfur hefði ég haldið, svona fyrir fram án þess að vera búinn að móta mér endanlega skoðun, að eðlilegra hefði verið að sitja við borðið og taka þátt í því. En það eru einmitt peningar og mannafli sem ráða þar miklu og við þurfum örugglega, ef við ætlum að vinna undir EES-samningnum eingöngu, að styrkja samstöðuna við Norðmenn eða þá hina aðilana til að við getum haft betri áhrif.

En kannski er aðalatriðið það til að hafa veruleg áhrif að vera með langtímamarkmið og langtímastefnu í ólíkum málaflokkum, það sé ekki bara bundið við kjörtímabil heldur horfum við til lengri tíma þannig að við verðum fær um að leggja fram okkar helstu og stærstu markmið á hverjum tíma í öllum málaflokkum.