143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Þetta mál er ekki algerlega nýtt af nálinni; það var til umfjöllunar á 141. löggjafarþingi og á rætur að mestu að því er virðist í EES-reglum sem hér eru til innleiðingar og væri auðvitað hægt að segja ýmislegt um slík mál, þ.e. EES-málin.

Það sem einkennir þetta mál og reyndar nokkur fleiri sem koma núna frá hæstv. ríkisstjórn er að þau eru mál sem núverandi ríkisstjórnarflokkar flytja inn í þingið á þessu löggjafarþingi sem þeir sjálfir stóðu fyrir að stöðva undir lok síðasta kjörtímabils, mál sem voru komin úr nefndum og var í sjálfu sér ekkert endilega mikill ágreiningur um, en af einhverri meinbægni stóðu núverandi stjórnarflokkar, þá í stjórnarandstöðu, og stöðvuðu nokkur slík mál með því sem sumir hefðu a.m.k. kallað málþóf og ég heyri stundum kvartað yfir hér af hálfu núverandi stjórnarflokka. Það er eins og þeir geti ekki fellt sig við það að hér séu mál rædd í þaula þegar þeir eru ríkisstjórnarmegin við borðið, en gera engar athugasemdir við það og finnst það sjálfsagt þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Þetta er dæmi um slíkt mál sem var sem sagt stöðvað þótt það hafi vissulega tekið einhverjum breytingum í meðferð ráðuneytisins áður en það var flutt aftur, engu að síður er það að stofni til slíkt mál.

Ég heyrði ekki betur þegar hæstv. ráðherra talaði hér fyrr í þessu máli en að það hefðu ekki verið gerðar veigamiklar breytingar á frumvarpinu frá því sem það var á 141. þingi. Ef það er rétt er kannski enn þá sérkennilegra að það hafi ekki getað fengið framgang þá.

Það eru eftir sem áður hérna nokkur atriði í þessu máli. — Ég fagna sérstaklega að forustukonur úr þingflokki Framsóknarflokksins skuli vera komnar hér inn í dyragættina, það er kannski við því að búast að þær komi og taki þátt í umræðum um málið. Það væri viti meira að fá að heyra aðeins sjónarmið þeirra í þeim málum sem hér eru til umfjöllunar. Og þá hverfa þær. — Það eru sem sagt nokkur atriði í þessu máli sem er ástæða til að fjalla aðeins um og velta upp. Ég get sagt eins og hv. þm. Edward Huijbens, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði í ræðu sinni hér áðan, að málið sé í sjálfu sér ágætt og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum væntanlega styðja framgang þess en eftir sem áður eru ýmis álitamál sem koma upp og snerta meðal annars þær breytingar sem frumvarpið hefur tekið frá því að það var til umfjöllunar á síðasta þingi og ég ætla að nefna hér í nokkrum atriðum.

Stærsta atriðið er í mínum huga sú breyting sem gerð er á meðferð framkvæmda sem falla í svokallaðan C-flokk og gerð er grein fyrir í 12. gr. frumvarpsins. Þar falla framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig, þ.e. með tilliti til eðlis umfangs og staðsetningar hvort framkvæmdirnar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt þessum lögum. Samkvæmt þessu frumvarpi er sú breyting gerð að framkvæmdir sem eru flokkaðar í svokallaðan C-flokk eru ekki lengur metnar af Skipulagsstofnun heldur eiga sveitarfélögin sjálf að meta hvort framkvæmdirnar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Hér komum við að sjálfsögðu að ákveðinni grundvallarspurningu. Í athugasemdum með þessu frumvarpi er vísað til þess að þau sjónarmið hafi komið fram frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga við vinnslu málsins á sínum tíma og á grundvelli þeirra athugasemda sé þetta lagt til núna.

Ég var lengi sveitarstjórnarmaður í Reykjavík og meðal annars formaður skipulagsnefndar og umhverfisnefndar í Reykjavík og svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins og tel mig þekkja nokkuð til þessara skipulags- og umhverfismála á vettvangi sveitarfélaganna. Ég skil alveg og er í sjálfu sér ekki ósammála þeim grundvallarviðhorfum að sveitarfélögin eigi að geta tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu. Engu að síður eru ákveðin verkefni, sem eru mjög mikilvæg með tilliti til almannasjónarmiða íbúa landsins alls og með tilliti til þess að það séu samræmdar reglur, verklagsreglur og úrvinnsla fyrir landið allt, sem er ekki endilega í öllum tilvikum heppilegt að séu flutt til sveitarfélaganna. Ég álít að menn þurfi að staldra við og spyrja sig hvort heppilegt sé fyrir sveitarfélögin að þetta verkefni verði flutt til þeirra. Þau eru mjög mismunandi að stærð og burðum til þess að sinna þessu verkefni.

Eins og bent hefur verið á í þessari umræðu nú þegar er návígið meira í sveitarstjórnargeiranum og þá getur verið erfiðara að fást við úrskurði af þessum toga við slíkar aðstæður. Það býður líka heim þeirri hættu að ekki verði samræmi á milli úrskurða. Framkvæmdir sem kunna að vera nokkuð svipaðar eða mjög ámóta gætu fengið mismunandi úrlausn eftir sveitarfélögum vegna þess að úrskurðaraðilarnir þar um væru svo margir. Þetta tel ég að sé nokkuð sem verður að skoða mjög rækilega við meðferð málsins í þingnefnd.

Það er líka eftirtektarvert að gert sé ráð fyrir því að þó að sveitarfélögin eigi að úrskurða um matsskyldu framkvæmda sem falla undir þennan tiltekna flokk þá eigi Skipulagsstofnun eftir sem áður að vera með ákveðið leiðbeiningarhlutverk og eftirlit. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að stofnun eins og Skipulagsstofnun fari með leiðbeiningarhlutverk gagnvart sveitarfélögunum, eigi t.d. að gefa út sérstakar reglur sem sveitarfélögin eiga að fara eftir, en eigi svo líka að hafa eftirlit með framkvæmd sömu reglna. Þá veltir maður fyrir sér hvort sami aðilinn sé ekki beggja vegna borðs, hvort Skipulagsstofnun geti ekki orðið vanhæf til þess að hafa með höndum eftirlit með framkvæmdum eða úrskurðum þar sem hún hefur sjálf verið leiðbeiningaraðili og gefið út leiðbeiningarreglur. Hérna finnst mér hlutirnir ekki alveg ganga upp og þetta þurfi þess vegna frekari skoðunar við.

Það er annað atriði líka sem ég vil nefna og spyrja um og velta upp og það væri fróðlegt að fá viðbrögð frá hæstv. ráðherra ef hann er hérna einhvers staðar í námunda við þessa umræðu. Það er gildi Árósasamningsins. Spurningin er hver verði aðkoma einstaklinga í sveitarfélögunum, þess vegna félagasamtaka, að málum af þessum toga. Segjum sem svo að fyrirtæki vilji fara í einhverja tiltekna framkvæmd sem flokkast undir svokallaðan C-flokk og leiti álits hjá sveitarfélaginu á því hvort framkvæmdin sé matsskyld og sveitarfélagið kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé það ekki. Þá spyr maður sig: Eru einhverjar kæruleiðir? Hverjir geta kært? Það er augljóst að ef sveitarfélag kæmist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri matsskyld gæti viðkomandi framkvæmdaraðili kært þann úrskurð eða áfrýjað honum til annarra aðila, kannski til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. En ef dæmið snýst við og sveitarfélagið segir: Þessi framkvæmd er ekki matsskyld. Gæti þá einhver annar aðili innan sveitarfélagsins sem væri ósáttur við þá niðurstöðu gert athugasemdir, kært ákvörðunina, komið henni fyrir úrskurðarnefnd eða hvað? Þetta finnst mér ekki vera ljóst af því sem ég hef séð í þessu frumvarpi. Ég tel að það þurfi að fást svör við því hver aðild íbúa í sveitarfélögunum geti orðið að málsmeðferð við slíkar aðstæður.

Ég vil líka aðeins nefna hérna það sem hefur komið upp í þessari umræðu um skipulagsvaldið almennt og um aðalskipulag, deiliskipulag og svæðisskipulag. Það tengist umræðunni um hlutverk sveitarfélaganna og hvaða verkefni þau hafa með höndum í þessu samhengi. Í mínum huga, og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni áðan, er skipulagsvaldið og á að vera hjá sveitarfélögunum. Menn geta auðvitað deilt og haft alls konar skoðanir á einstökum skipulagsákvörðunum sem sveitarfélögin taka, en þau eru þrátt fyrir allt lögmæt stjórnvöld í landinu sem fara með viss verkefni sem þeim eru oftast fengin í lögum, þótt þau fari reyndar með ýmis verkefni sem ekki eru lögboðin þá er í þessu tilfelli um að ræða lögbundin verkefni, og þau þurfa að sjálfsögðu að sinna þeim innan ramma laganna. Þau eru lögmæt stjórnvöld, sækja umboð sitt beint til kjósenda, íbúa sinna, og standa skil á ákvörðunum sínum gagnvart þeim.

Þegar kemur að næsta skipulagsstigi sem væri þá svæðisskipulagsstigið er þetta með aðeins öðrum hætti. Þetta tengist að sjálfsögðu því hvernig við skipuleggjum hina opinberu stjórnsýslu hér á landi og hvert hún sækir lögmæti sitt. Það er alveg ljóst að Alþingi sækir lögmæti sitt til kjósenda í þingkosningum. Sveitarstjórnirnar, með þau verkefni sem þeim eru falin, sækja lögmæti sitt beint til íbúa í sveitarfélögum sínum. En þegar við erum komin með stjórnkerfi og stjórnsýslu sem er þarna einhvers staðar á milli, einhvers konar samstarfsverkefni sveitarfélaga, einhver félagasamtök eins og landshlutasamtök sveitarfélaga sinna, það geta verið mikilvæg verkefni og varðað íbúana miklu, við þekkjum dæmi um það, þá stöndum við hins vegar frammi fyrir því að lögmæti ákvarðana sem slíkir aðilar, ég vil ekki segja stofnanir, taka er mjög takmarkað. Kjósendur hafa enga beina aðkomu og geta hvorki valið þá sem fara með það vald beint né geta í raun og veru gert upp hug sinn gagnvart þeim sem fara með það vald af því það er ekki kosið beint til þess stjórnvalds.

Ég hef almennt þá skoðun að menn þurfi að velta fyrir sér svona verkefnum sem eru á milli ríkis og sveitarfélaga eða eru unnin í samstarfi sveitarfélaga. Það á við verkefni á sviði skipulagsmála og getur átt við verkefni á sviði umhverfismála og samgöngumála og sorphirðumála og fleiri slíkra málaflokka. Ég tel að það þurfi að skoða það miklu betur út frá lýðræðislegu sjónarhorni hvernig þeim málum er fyrir komið í stjórnskipun og stjórnsýslu okkar. Ég tel mikilvægt að menn séu þess minnugir að valdið sem opinberir aðilar fara með kemur frá íbúunum, frá landsmönnum og frá íbúum sveitarfélaganna, og þeir þurfa að hafa beinan aðgang að því og að þeim sem fara með það vald, en það er ekki alltaf tryggt þegar það hefur verið framselt eins og í þeim tilfellum sem ég hef hér nefnt.

Þetta, virðulegi forseti, eru helstu atriði sem ég vildi nefna í þessari ræðu. Þetta eru atriði sem ég tel að þurfi að skoða vandlega í þingnefndinni þegar hún tekur til við afgreiðslu málsins.