143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann er auðvitað margfróður um skipulagsmál og vegna áherslunnar á að sveitarfélögin fari með þau má spyrja til upprifjunar hvort þingmaðurinn þekki hvernig skipulagsmálum er hagað til að mynda á Þingvöllum, hvort það séu engar undantekningar frá þessari meginreglu.

Aðallega vildi ég spyrja þingmanninn um C-flokkinn sem hér er verið að breyta frá frumvarpinu eins og það kom veturinn 2012–2013, að stjórnsýslan um hann sé ekki hjá Skipulagsstofnun heldur hjá sveitarfélögunum. Annars vegar er það hvort þetta sé ekki í raun flóknara fyrirkomulag, af því það er rökstutt af hálfu ráðherrans, ef ég skil það rétt þannig að þetta sé einfaldara fyrirkomulag. Er það ekki í raun og veru flóknara skipulag að vera með ólíkar stofnanir að sýsla um þessa hluti eftir því hvaða flokk það á við? Væri ekki skýrara gagnvart borgurunum og þeim sem þurfa að sækja þessi erindi að þau mál væru einfaldlega á einni hendi og hægt að leita með þau öll á einn stað og þau afgreidd á einum stað sem tryggði um leið jafnræði þeirra sem um þau mál þurfa að leita?

Hins vegar er það almennt um þróun með verkefnatilflutning til sveitarfélaganna, hvort hv. þingmaður geti verið sammála því að það hafi orðið ákveðin stöðnun í samrunaferli sveitarfélaga og fækkun þeirra og stækkun og að það sé nauðsynleg forsenda fyrir því að fela sveitarfélögunum veruleg ný verkefni að þau leiti leiða til að sameinast og verða öflugri (Forseti hringir.) og færri en nú er.