143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar.

Varðandi skipulagsmál á Þingvöllum verð ég að viðurkenna að ég þekki þau ekki svo glöggt, ég hef aldrei verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga sæti í hinni merku Þingvallanefnd. Eftir því sem ég best veit fer Þingvallanefndin með stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum en líklega eru skipulagsmálin í höndum sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli, ef ég skil rétt. Þetta þekki ég ekki í smáatriðum en ég hefði haldið það.

Hv. þingmaður spurði líka hvort ég teldi að þessi breyting að því er varðar hinn svokallaða C-flokk væri til þess að einfalda málið eða gera það flóknara. Ég held að þegar margir aðilar, eins og í þessu tilfelli sveitarfélögin, fara með mál þar sem ríður á engu að síður réttarstöðunnar vegna að það séu samræmdir úrskurðir eða samræmd afstaða til sambærilegra mála, þá geri þetta fyrirkomulag stjórnsýsluna flóknari heldur en hitt. Ég fæ ekki séð að það sé mikil einföldun í því að það séu öll sveitarfélögin 78 í landinu komin með þetta verkefni af því það er mikilvægt að það sé tekið á sambærilegum málum á sambærilegan hátt, vegna þess að annars er komin mismunun gagnvart þeim sem eru með framkvæmdir undir þessum flokki, það er þá háð því hvaða afstöðu viðkomandi sveitarstjórn tekur en ekki eðli framkvæmdarinnar. Það tel ég að geri málið flóknara en ekki einfaldara.

Síðustu spurningu (Forseti hringir.) hv. þingmanns um verkefnatilflutning verð ég að fá að svara í síðara andsvari ef gefinn verður kostur á því.