143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Ég held að ég muni það örugglega rétt að það sé undantekning frá þessari meginreglu um skipulagsvald sveitarfélaganna í því að Þingvallanefnd fari með skipulagsvaldið í þjóðgarðinum. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort fleiri slíkar undantekningar gætu átt við. Auðvitað er sérstakur háttur hafður á skipulagsmálum á miðhálendinu eins og við þekkjum. Allt um það.

Ég vildi síðan í öðru lagi spyrja þingmanninn út í þá umræðu sem hér hefur orðið um ástæður þess að framgangur þessa máls var stöðvaður veturinn 2012 og 2013 og löggjöfin fékk ekki efnislega niðurstöðu og afgreiðslu þótt það væri meirihlutavilji á þingi til þess. Það virðist svo vera af umræðunni að þetta litla atriði sem ráðherrann telur vera C-flokkinn, sem hann kallar svo að snúist um til dæmis leirbrennsluofna eða álíka merkilegar framkvæmdir ef skilja mátti ráðherrann rétt, hafi verið eina atriðið sem ágreiningur var um og hafi verið notað til þess að stöðva löggjöfina sem við þurfum að innleiða vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar. Er þetta ekki ótrúleg meinbægni af hálfu þeirra sem lögðust í veg fyrir málið á sinni tíð og eru síðan í raun og veru að flytja það hér á ný nánast óbreytt í öllum aðalatriðum nema þessu eina litla smáræði? Ætti það ekki að vera okkur umhugsunarefni að menn noti svo lítil tilefni til þess að koma í veg fyrir framgang mála í þinginu?