143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og vil til að byrja með fagna því sérstaklega að þetta mál skuli fram komið, þ.e. breytingar á skipulagslögum og sérstaklega að því er varðar bótaákvæðið, enda á sú vinna töluvert langa sögu þó að engin séu nú ártölin reyndar í greinargerð ráðherrans um það hvenær vinna að þeirri breytingu hófst, en látum það liggja á milli hluta. Ég fagna því að hæstv. ráðherra nefnir Trausta Fannar Valsson í framsögu sinni þó að hans sé ekki getið hér á prenti.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að lengi hefur verið rætt um stöðu deiliskipulagsáætlana og þeirrar vinnu í Skipulagsstofnun og var rætt um það að deiliskipulagsáætlanir yrðu ekki lengur afgreiddar þar heldur mundu sveitarfélögin fullnaðarafgreiða deiliskipulagsáætlanir til að létta á álaginu þar. (Forseti hringir.) Ég vil því spyrja ráðherrann hvort sú vinna væri líka til skoðunar, því að ég bjóst við því að ég mundi sjá það hér.