143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og að taka þetta mál hingað inn og opna þar af leiðandi dálítið fyrir umræðu um skipulagslögin og breytingar á þeim.

Ég vil bara velta hér aðeins upp einu álitaefni. Ég minnist þess af aðkomu minni að skipulagsmálum í Reykjavík, sem var nokkur á sínum tíma, að það stóð oft breytingum og skipulagi, einkum og sér í lagi deiliskipulagi, fyrir þrifum að í gildi voru gamlar deiliskipulagsáætlanir þar sem menn höfðu fengið einhver verðmæti, jafnvel óumbeðið, og ekki nýtt sér með neinum hætti árum saman, en ef sveitarfélagið ætlaði síðan að breyta skipulaginu þá risu menn allt í einu upp og sögðu: Heyrðu, hér á ég rétt og þið skuluð vesgú borga mér hann, hundruð milljóna. Þetta fór oft fyrir brjóstið á mönnum og vakti upp spurningar: Bíddu, er þetta gott skipulag? Er eðlilegt að deiliskipulagsáætlanir (Forseti hringir.) gildi nánast um aldur og ævi og veiti mönnum einhvern rétt sem þeir geta fénýtt ef þeim dettur í hug, sérstaklega ef sveitarfélagið ætlar að gera breytingar á skipulaginu?

Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir viðhorfi hans til þessa máls.