143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt til getið hjá hæstv. ráðherra að ég er að velta fyrir mér tímalengd deiliskipulagsáætlana. Auðvitað er dálítið sérkennilegt ef maður hugsar það að aðalskipulagið, sem er skipulagsstig sem er ofar, hefur tímalengd, tólf ár að lágmarki samkvæmt skipulagslögum og oft lengur, en deiliskipulagsáætlanir sem verða að vera í samræmi við aðalskipulag geta gilt um aldur og ævi og þess vegna verið komnar í ósamræmi við aðalskipulag. Þetta vekur upp spurningu um hvort ekki sé eðlilegt að horfa á það sérstaklega að deiliskipulagsáætlanirnar séu tímasettar og velta því jafnvel líka upp í tengslum við bótaréttinn að ef menn nýta sér ekki heimildir innan deiliskipulags á einhverjum tilteknum tíma þá falli niður það sem menn kalla gjarnan eign, sem ég vil leyfa mér að draga mjög í efa að geti verið eign. (Forseti hringir.) Ég tel alla vega að þetta séu álitaefni sem mættu alveg koma inn í þessa umræðu og líka í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.