143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég vil inna hann eftir þeim ákvæðum sem lúta að því að skerpa á heimildum til breytinga á svæðisskipulagi miðhálendisins, hvort undir þau ákvæði gætu fallið breytingar sem til dæmis vörðuðu uppbyggða vegi þar eða línulagnir sem nokkuð hafa verið umræddar hér í þinginu í vetur. Það væri gott að vita ef svo er.

Aðallega vildi ég gera athugasemdir við að það væri verið að gera auðveldara fyrir um að landeigendur geti fengið afgreidd deiliskipulög sem þeir framkvæma sjálfir í gegnum sveitarstjórn og jafnvel leggja fram bæði umsóknina um að fá að deiliskipuleggja og deiliskipulagið á einum og sama fundinum. Þetta tel ég vera algjörlega fráleitt og það eigi að heyra til algjörra undantekninga að landeigendur fái sjálfir skipulagsvaldið á svæðinu. Af því eru mörg vond dæmi, því að hámarksfénýting á landinu er yfirleitt niðurstaðan úr slíkum ráðstöfunum, og fer langbest á því (Forseti hringir.) að almannavaldið hafi skipulagsvaldið þó að landeigendurnir geti gert tillögu til skipulagsvaldsins um hvernig eigi að útfæra.