143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að árétta það þá að þessi ákvæði gætu átt við og fyllt upp í tómarúm til að heimila uppbyggða vegi eða heimila línulagnir á miðhálendinu, ef það er réttur skilningur hjá mér.

Annað atriði sem ég vildi nefna hér stutt í andsvörum er það sem lýtur að því að lengja frest ráðherra til að staðfesta aðalskipulag þar sem efnislegar athugasemdir hafa verið gerðar úr sex vikum í þrjá mánuði. Þetta tel ég að sé í hróplegu ósamræmi við það sem hæstv. ráðherra hefur boðað sem stjórnmálamaður, að hér eigum við að einfalda stjórnsýsluna, stytta ferlin, stytta kæruleiðirnar, auðvelda ferlana, og að það séu engin efnisrök til að lengja þennan frest sem ráðherrann hefur og alls ekki eigi að nota þau efnisrök að einhver sveitarfélög séu svo lítil að þau fundi sjaldan og geti illa á tilsettum tíma skilað umsóknum. Það á ekki að laga löggjöf að því að sveitarfélög séu of lítil og geti ekki sinnt verkefnum sínum nægilega vel. Þá verða sveitarfélögin að aðlaga sig löggjöfinni og sameinast.