143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mér hefur þótt verst í þessari umræðu er að mér hefur stundum fundist borgaryfirvöld halda því of fljótt fram sjálf að þau væru bótaskyld þegar lagaumhverfið er ekki skýrara en það er. Ég velti fyrir mér hvort — maður gengur nú ekki svo langt að segja að missa samningsstöðu, en er ekki dálítið undarlegt áður en mál er höfðað að segja að maður skuldi peninga eða eigi að borga bætur?

Mér hefur þótt mikilvægt að láta á þetta reyna fyrir dómstólum að því er varðar bótakröfu einhvers lóðarhafa á hendur Reykjavíkurborg á grundvelli núgildandi laga, þ.e. áður en þessi réttur er skýrður betur eins og hér er lagt til.

Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er afar skýrt verkefni fyrir okkur hér í allri auðmýkt að beina til nefndarinnar eða óska eftir því að nefndin skoði sérstaklega möguleika á því að setja sólarlagsklásúlu í tengslum við deiliskipulagsáætlanir, hversu lengi þær skuli gilda eða hvort þær gildi ótakmarkað nema þegar einhver tiltekin ákvörðun stendur fyrir dyrum. Mér finnst þetta vera aðkallandi þáttur. Þó að það sé því miður oftast þannig að svona umræða er að gefnu tilefni, það kemur einn turn eða eitt torg eða eitthvað slíkt sem ýtir fólki í það að skoða regluumhverfið, þá finnst mér þetta vera viðfangsefni sem er svo náskylt því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, bótaákvæðinu, að ég held að það sé algjörlega rakið að nefndin skoði það.