143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var áhugavert dæmi sem hv. þingmaður tók, um móann hérna fyrir austan Selfoss, og kannski hæstv. umhverfisráðherra þekki eitthvað til þess móa og flóa. En þetta er athyglisvert og hann nefndi tjón sem hefði verið reiknað, væntanlega í bókhaldi fjármálafyrirtækja sem fóru á hausinn, það er sem sagt hægt að reikna verðmæti í alls konar loftkastala þegar þangað er komið, en spurning hvort það eru einhver verðmæti í raun og sann.

Mér finnst mikilvægt að farið sé í saumana á þessu máli. Auðvitað vitum við að það hafa örugglega verið skrifaðar margar lærðar ritgerðir hér á landi um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og allt eftir því. Ég tek eftir því að í greinargerð með þessu frumvarpi er meðal annars verið að lýsa fyrirkomulagi þessara mála á öðrum Norðurlöndum, en líka tekið fram að það sé ekki algerlega sambærilegt vegna þess að ákvæði í stjórnarskrá okkar og annarra Norðurlanda séu ekki sambærileg varðandi eignarréttarákvæði. Það má vel vera að það sé rétt, en mér finnst að hér hafi menn teygt sig býsna langt þegar menn eru farnir að reikna alveg hreint óhemju mikil verðmæti í alls konar loftkastala sem menn kunna að hafa verið með hugmyndir um en aldrei orðið að veruleika.

Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hver afstaða hans sé til hugmynda um að deiliskipulagsáætlanir séu almennt tímasettar og hvort það mundi hafa einhver áhrif á þessa umræðu um eignarréttinn ef þær væru tímasettar og sannarlega alltaf innan gildistíma aðalskipulags, en jafnvel til skemmri tíma, þannig að möguleikar sveitarfélaga til að endurskoða þær væru rýmri. Mundi það hafa áhrif, (Forseti hringir.) að mati þingmannsins, á umræðuna um þennan meinta eignarrétt?