143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það gæti sannarlega líka verið lausn í málinu, og raunar á báða bóga hugsanlega, að það sé einfaldlega fyrir fram skilgreint og afmarkað með hvaða hætti bætt verði ef byggingarheimildir eða heimildir fyrir óbyggðum fermetrum eru aftur teknar. Sömuleiðis ef þær heimildir sem menn fá til framkvæmda á lóðum eru ekki nýttar innan einhvers ákveðins tíma hafi það einfaldlega einhverjar afleiðingar.

Ég held raunar að við höfum líka gengið allt of langt í því að heimila lóðarhöfum — því að oftast í sveitarfélögum er þetta náttúrlega land í eigu sveitarfélagsins og sveitarfélagið í raun og veru bara að afhenda umráðarétt tímabundið yfir þeim lóðum til aðila, hvort sem það eru einstaklingar eða lögaðilar — við höfum allt of oft verið lin í því, svo við orðum það bara þannig, að úthluta lóðum til einkanlega lögaðila og láta það síðan viðgangast að á þeim sé ekkert framkvæmt og ekkert gert sem skipulagt hafði verið, heldur lóðunum haldið stundum einungis til að braska með þær svo það sé sagt á íslensku, bara til að bíða eftir því að árferði verði þannig að hægt verði í einhverjum viðskiptum að hagnýta sér það að hafa fengið slíka úthlutun. Það kemur auðvitað niður á sveitarfélaginu og fasteignareigendum í kring en auðvitað líka á öllum brag byggðarinnar.