143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:42]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek sterklega undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni hvað þetta varðar. Þetta er oft mjög öfugsnúið. Það getur myndast svo mikil pressa á sveitarstjórnarfulltrúana því að framkvæmdaraðilar eru oft með góðar hugmyndir og góðan vilja, en síðan fellur þetta kannski ekki í kramið og þá fær maður það í andlitið: Heyrðu, ég er búinn að eyða tugum milljóna kr. í þetta. Það er dýrt ef reist er bygging fyrir 500 milljónir og búið er að eyða 100 milljónum af heildarkostnaði byggingarinnar. Þannig að hér er um háar fjárhæðir að ræða.

Ég tek einnig undir með hv. þingmanni hvað varðar bótaréttinn, sem ég hef líka smááhyggjur af, hvað hann gæti orðið íþyngjandi fyrir sveitarfélögin. Ef lóðareigandi til dæmis fær ekki það sem hann vill gæti hann í rauninni kært, ef einhverjar aðrar hugmyndir eru uppi og samningar ganga ekki eftir. Ef arður af byggingunni er núvirtur og annað og greiða ætti það úr sveitarsjóði þá gætu það orðið svívirðilegar upphæðir. Því þarf sveitarstjórnarstigið að hafa mjög skýrt skipulagsvald og hafa mjög skýrar kröfur. Það mætti kannski koma sterkar fram í frumvarpinu.