143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:45]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum. Ég kem að mörgu leyti úr sömu átt og ýmsir þeir þingmenn sem talað hafa hér á undan, ég hef verið og er raunar enn í sveitarstjórn í tiltölulega stóru sveitarfélagi og þekki því að þessi málaflokkur á kannski ekki hug og hjörtu sveitarstjórnarmanna en drjúgan hluta af tíma þeirra.

Í skipulagsmálum eru að jafnaði undir gríðarlega miklir hagsmunir, ekki bara fyrir sveitarfélögin og ekki bara fyrir lögaðila heldur líka og ekki síst fyrir þá einstaklinga sem í sveitarfélögunum búa. Það má ekki gleyma því að skipulag eins sveitarfélags snertir alla sem búa í sveitarfélaginu og snýst um umhverfi og lífsgæði og hvernig er að búa þar. Þetta skiptir miklu máli.

Þess vegna er að mörgu leyti til fyrirmyndar að farið sé í þá vinnu að leggja fram þetta frumvarp einum fjórum árum eftir að skipulagslög voru samþykkt. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er grundvallarhugmyndin með því að gera þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til sú að sníða af agnúa og skýra betur skipulagslögin, væntanlega með þeim vilja að láta þau virka betur fyrir þá sem nota þau í sínu daglega starfi. Það er mjög gott að þetta sé gert og til fyrirmyndar af hálfu ráðuneytisins, eins og kom fram áðan, að hafa haldið áfram með þá vinnu sem var byrjuð í tíð fyrri umhverfisráðherra.

Hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um ýmsar breytingar en mest staldrað við tvær. Mig langar líka, herra forseti, að staldra aðeins við ákvæði 10. gr. frumvarpsins, sem fjallar um breytingar á 32. gr. laganna, og 15. gr. frumvarpsins, sem fjallar um 42. gr. laganna. Báðar þessar greinar, þ.e. 10. og 15. gr. snúast um fresti, tímafresti. Það kom ágætlega fram í máli hv. þm. Helga Hjörvar áðan að það má velta því fyrir sér hvort hér sé tíminn lengdur um of, til að mynda í 10. gr., þar sem umþóttunartími ráðherra, standi það til að synja aðalskipulagi, er lengdur úr sex vikum í þrjá mánuði. Þetta lengir náttúrlega dálítið ferlið sem þarna er í gangi. Ef þetta lendir, eins og maður segir, vitlaust á tímasetningum í sveitarfélaginu, til að mynda að vori til þegar menn hafa kannski búist við að skipulagið yrði staðfest fyrir sumar, getur þetta frestað í rauninni allri vinnu sveitarfélagsins við þetta fram á haust, það getur frestað því að hægt verði að klára aðalskipulag fram á haust. Þess vegna er þetta kannski óþarflega ríflegur frestur.

Hæstv. ráðherra kom raunar inn á það í máli sínu fyrr í dag að það mætti kannski skoða það hvort þarna hefðu menn gengið aðeins of langt. Ég tek undir það að kannski væri hæfilegra að lengja frestinn í átta vikur eða eitthvað svoleiðis en fara ekki alla leið upp í þrjá mánuði eins og gert er ráð fyrir í 10. gr.

Í 15. gr. er breyting á fresti sveitarfélagsins til þess að senda inn deiliskipulag til ráðherra. Sá frestur er í dag átta vikur en er hér lengdur í sex mánuði. Það er hálft ár. Jafnvel þó að ég sem sveitarstjórnarmaður hafi ágætan skilning á því að mannafli er misjafnlega mikill hjá sveitarfélögum, það er misjafnlega mikið opið og haldnir misjafnlega margir fundir o.s.frv., þykir mér býsna mikið í lagt að lengja frestinn upp í hálft ár. Ég skil raunar ekki hvers vegna, ég get ekki skilið það á ákvæðinu að þetta fresti gildistöku á deiliskipulagi í þessu tilfelli. Af hverju þarf fresturinn þá að vera svona óskaplega langur? Einhverjir gætu sagt: Það skiptir engu máli vegna þess að þetta er hvort sem er bara deiliskipulag. En ég ítreka að deiliskipulag er mikilvægt fyrir flesta íbúa sveitarfélaganna.

Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um þær greinar frumvarpsins sem fjallar um heimild annarra en sveitarfélags, þ.e. 12. og 13. gr. frumvarpsins, til að vinna skipulag og standa straum af kostnaði. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér áðan að þarna virðist vera um orðalagsbreytingu að ræða. Þá spyr maður sig af hverju hún er gerð. Ég hafði áhyggjur af því þegar skipulagslög voru sett á sínum tíma að við værum yfirleitt að setja ákvæði í lögin um að aðrir en sveitarfélagið ættu að sjá um deiliskipulagsgerð. Ég geld varhuga við því að menn feti sig lengra í þessa átt. Sá sem leggur fram tillögu til skipulags, kannski fullmótaða, hefur dálítið mikið dagskrárvaldið, hann ræður dálítið miklu. Það þýðir óhjákvæmilega að miklu erfiðara verður fyrir sveitarstjórnarmenn og jafnvel starfsmenn sveitarfélagsins líka að breyta eða snúa kannski við tillögum, eins og kom fram í andsvörum áðan, tillögum sem eru kannski orðnar mjög ítarlegar, jafnvel fullunnar og hafa kostað mikla peninga.

Það er líka mikilvægt í þessu sambandi, og það vil ég undirstrika sérstaklega, að þegar til að mynda lögaðilar leggja fram fullmótaðar deiliskipulagstillögur og fullmótaðar tillögur að meiri háttar framkvæmdum í sveitarfélagi getur verið mjög þungt undir fæti fyrir sveitarstjórnarmenn að segja nei, sérstaklega ef hagsmunir viðkomandi aðila eru gríðarlegir. Ég tala nú ekki um ef þarna virðist fljótt á litið blasa við að miklir fjármunir gætu runnið til sveitarfélagsins ef af framkvæmdum yrði. Ég held að það sé óþarfi að hafa þarna inni þennan freistnivanda sem kemur upp með því að hringla með þetta ákvæði. Ég held að hv. umhverfis- og samgöngunefnd ætti að fara mjög varlega og fá góðan rökstuðning fyrir því af hverju þurfi að gera þetta með þessum hætti.

Í lok ræðunnar vil ég tala um bótaréttinn og hvernig hann snýr að sveitarfélögunum og setja það í víðara samhengi en hv. þingmenn hafa gert hér fyrr í dag. Ég get lofað því að enginn talar niður það sem við mundum í daglegu tali kalla raunverulegan eignarrétt fólks eða lögaðila, það mun enginn gera. En það er mikilvægt að átta sig á því, eins hefur komið fram í umræðunni, að svokallaðir loftkastalar eða skýjaborgir eða væntingar um loftkastala eða skýjaborgir eru tæplega fé í hendi. Þess vegna verður maður að spyrja sig: Á bótarétturinn að ná yfir það, á hann að hafa áhrif þar? Þetta á til að mynda við um það þegar menn fara af stað með einhverjar draumórakenndar áætlanir, fá samþykkt skipulag út á þær og geta síðan notað þá samþykkt sem — hvað heitir það í ársreikningum? — velvild eða viðskiptavild eða eitthvað þess háttar, t.d. til að veðsetja. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom með ágætisdæmi um það áðan. Til þess eru vítin í því efni að varast þau.

Það er líka mjög athyglisvert sjónarmið sem kemur þarna fram að bótarétturinn getur gert að verkum að einstakir aðilar geta hreinlega haft skipulagsvald sveitarfélags í gíslingu, geta hreinlega stoppað sveitarfélag í að breyta skipulagi vegna þess að væntur bótaréttur, væntingar þessara aðila eða aðila á einhverjum tilteknum reit geta verið svo miklar. Þá hafi sveitarfélagið hreinlega ekki efni á að þróa sig áfram, geti hreinlega ekki breytt skipulaginu jafnvel þó að það væri vilji íbúanna, eins og til að mynda hefur komið fram í Reykjavík varðandi margumræddan turn sem er verið að byggja við neðanverðan Frakkastíg ef ég man rétt.

Það eru því ansi margþætt sjónarmið í þessu. Það sjónarmið sem hér hefur komið fram um að kannski ætti að setja einhvers konar tímamörk á deiliskipulag er nokkuð sem mér finnst algjörlega þess virði að skoða. Þá er kannski næsta verkefni að finna tímarammann á það. Á það að gilda jafnlengi og aðalskipulag, á það gilda eitthvað skemur? Eða á ákvæðið um endurskoðun kannski fyrst og fremst að vera heimildarákvæði, sem þó væri þannig að það væri skilyrt við að deiliskipulagið sem slíkt myndaði ekki einhvers konar bótarétt? Auðvitað vitum við að ekki þarf að endurskipuleggja gróin hverfi aftur og aftur, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir nefndi áðan, bara út af einhverju ákvæði um að skipulagið gildi ekki í tiltekinn tíma. Þar getur verið um heimildarákvæði að ræða eða eitthvað þess háttar og menn geta þá miklu frekar stimplað það frekar en að skoða í einhverjum smáatriðum.

Ég nefndi lítillega í andsvari áðan að við ættum kannski að skoða hvort bótarétturinn gæti ekki náð í báðar áttir, vísað í báðar áttir. Það er sannarlega þannig að þegar skipulag er samþykkt hefur sveitarfélagið sem slíkt ákveðnar væntingar um að eitthvað gerist á viðkomandi reit, sérstaklega ef um er að ræða deiliskipulag í þéttbýli. Þegar um er að ræða leigulóðir eru sveitarfélögin reyndar oftast með þannig ákvæði að þau setja inn tímaramma eða þess háttar og geta þá jafnvel farið af stað með það að afturkalla réttindin eða afturkalla lóðina. Það getur verið ein leiðin í þessum tvístefnubótarétti. Hins vegar þegar um eignarlóð er að ræða eða slíkt geta menn í rauninni haldið réttinum til streitu endalaust án þess að sveitarfélagið geti nokkuð gert í því; kannski verður bara hreinlega eyða í skipulaginu. Og þá koma ekki inn neinar tekjur til sveitarfélagsins þó að það hafi á einhverjum tímapunkti haft um það væntingar.

Þetta getur skipt miklu máli, sérstaklega í því tilliti að viti menn að bótarétturinn sé í báðar áttir eða hafi væntingar um það eru miklu meiri líkur á að menn fari sér hægt (Forseti hringir.) í að sækja hann á annan veginn ef þeir vita að hægt er að sækja hann á hinn veginn líka.