143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvort hægt sé að setja bótarétt í báðar áttir. Ég hef einhvern veginn skilið það þannig varðandi framkvæmdaleyfi og slíkt að hægt sé að setja dagsektir á menn ef þeir byrja ekki að framkvæma á tilteknum tíma, að bótaréttur eða sekt sé kannski í þá átt. En það þarf að velta þessu fyrir sér.

Þeim mun meira sem ég hlusta á umræður hérna finnst mér að í vinnu nefndarinnar þurfi virkilega að hugsa það að setja einhver tímamörk á deiliskipulag. Það getur náttúrlega verið misjafnt eftir hverfum eins og hér var nefnt, hvort það eru gróin hverfi eða önnur sem eru í uppbyggingu.

Hv. þingmaður minntist á tímafresti. Mér finnst eðlilegt að lög séu endurskoðuð — eru þessi ekki orðin um fjögurra ára gömul? — þegar komin er einhver reynsla á þau og þá breytir fólk lögunum. En mér finnst við líka verða að vara okkur á því að breyta ekki lögunum þannig að við séum alltaf að gera allt auðveldara. Mér finnst leiðinlegt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sé ekki hér vegna þess að hér þarf aga og líka ráðvendni, ég held að þetta séu uppáhaldsorðin hans þessa dagana. Það þarf líka í þessu, það má ekki gera lögin of víð.

Mig langaði að spyrja um einn tímafrestinn enn þá, í 11. gr. Það út af fyrir sig skil ég ekki alveg. Þar segir (Forseti hringir.) að ef breyta eigi aðalskipulagi verði að tilkynna það innan (Forseti hringir.) árs frá sveitarstjórnarkosningum. Ég skil ekki af (Forseti hringir.) hverju þarf að setja þann tímafrest.