143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur fyrir spurningarnar.

Þetta eru mjög áhugaverðar vangaveltur um asnann klyfjaðan gulli, eins og einhvers staðar stendur. Hann getur komist býsna víða. Varðandi það að á bólutímum séu einhverjir líklegri til þess að koma með stórkostlegar pælingar þá er hættan alveg jafn mikil á erfiðum tímum, jafnvel meiri. Þá getur fjárhagur sveitarfélagsins verið það slæmur að menn hreinlega freistast til að taka ákvarðanir um skipulag eða lóðasölu sem mundu í eðlilegu árferði ekki samrýmast ýtrustu kröfum sveitarfélagsins eða íbúa þess. Þess vegna þarf að vera mjög mikil formfesta í þessu, þ.e. að það sé ekki hægt að „kaupa sér leiðir fram hjá“ ef maður er t.d. heppinn með tímasetningar. Það er mjög mikilvægt.

Þingmaðurinn spurði síðan út í hvort ákvæði um bótarétt gætu verið íþyngjandi fyrir sveitarfélög, sérstaklega ef þau vilja breyta skipulagi og það eru kannski stór sár í skipulaginu. Þau geta svo sannarlega verið það. En þá gætu einmitt tímafrestir varðandi skipulag komið inn í.

Tekjutap sveitarfélaga og erfiðleikar sveitarfélaga geta líka stafað af því að verktaki kaupir hús og ákveður að rífa það til þess að losna við að borga fasteignagjöld. Síðan stendur lóðin auð. Hún stendur auð og hún stendur áfram auð og engar tekjur koma inn af kannski mjög góðri lóð fyrir sveitarfélagið. Í þeirri stöðu getur verið freistandi fyrir sveitarfélagið að samþykkja jafnvel einhvern óskapnað á lóðina frekar en að hafa (Forseti hringir.) þar ekki neitt.