143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:36]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég hef einmitt orðið þess heiðurs aðnjótandi að sitja — ekki í sveitarstjórn reyndar — en í skipulagsnefnd sveitarfélags norður á Akureyri og ég get sagt að tímafresturinn er kannski helst til stuttur, tólf mánuðir beint eftir kosningar, ég tala nú ekki um ef alger umskipti verða í sveitarstjórnum, eins og oft vill verða, eins og gerðist hjá okkur á Akureyri síðast 2010. En það var þetta með tímafrestina, hvort einhver dæmi væru í frumvarpinu um að þeir stangist á.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni varðandi efnisinnihald frumvarpsins og greinargerðina með frumvarpinu. Þar er einmitt vísað í fjölmörg dómafordæmi sem komu fyrir gildistöku laganna frá 2010. Þau dómafordæmi eru til að byggja undir þágildandi skipulagslög frá 1964 og ég velti svolítið fyrir mér hvað þau upplýsa um gagnvart framkvæmd bótaréttarins núna eftir nýju lögin, sem sagt hvernig samspilið er milli dómaframkvæmdar fyrir gildistöku nýrra skipulagslaga frá 2010, sem tóku gildi 2011, og eru nú í gildi, þ.e. hvernig fyrri dómaframkvæmd upplýsir um það og hvaða forsögu þarna er verið að vísa til í forsögu bótaákvæðisins, hvaða forsögu dómaframkvæmdar er verið að vísa til mögulega þarna og hvort þar liggi einhverjar upplýsingar um hvort hið breytta orðalag feli þá í raun í sér rýmkun eða ekki, hvort leita þurfi aftur í dómaframkvæmdir frá 1964 sem raktar eru í greinargerð frumvarpsins og hvernig það líti út.