143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög líklegt til að vera mjög vænleg leið í þessum efnum að setja skýr tímamörk um gildistíma skipulags — deiliskipulags, svæðisskipulags eða hvað það nú er. Jafnvel ætti að skoða tímamörk á því að menn hefji framkvæmdir á grundvelli slíks skipulags innan tilskilins tíma, ella geti þeir engar kröfur reist á grunni þess hafi þeir ekki nýtt sér réttindi sín á meðan það var í gildi eða innan tilskilinna tímamarka í þeim efnum. Það er örugglega að einhverju leyti aðferð til að afmarka réttindin þannig að þau geti ekki verið ótímabundin og varað um árabil.

En síðan vek ég líka athygli á því að þetta varðar ekki bara hvert eitt sveitarfélag. Þetta getur líka leitt til bótaskyldu annarra aðila en sveitarfélagsins ef þeir eiga aðild að máli, samanber það að ríkið getur orðið bótaskylt og er í raun og veru ábyrgt fyrir í fyrsta lagi landsskipulagsstefnu og tjóni sem telst leiða af ákvörðunum einhverra annarra stjórnvalda ef það hefur leitt til þess að sveitarfélagið var skylt til að taka upp einhverjar skipulagsákvarðanir. Ríkið þarf því líka að huga að sínum hlut í þessum efnum og setja því einhver mörk þannig að það sé ekki bakábyrgt og mögulega skaðabótaskylt vegna hluta af þessu tagi án tímamarka eða út yfir gröf og dauða, liggur mér við að segja.