143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:49]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010, þar sem áherslan er á bótaákvæðið margumtalaða sem hefur ítrekað komið fram í ræðunum. Í frumvarpinu er fyrst og fremst lögð til breyting á bótareglum í 51. gr. skipulagslaga en umhverfis- og samgöngunefnd telur mikilvægt að bótareglu frumvarpsins verði breytt og hún tekin til skoðunar eftir ítarlegar athugasemdir og tillögur Reykjavíkurborgar um það efni. Áherslan er á að skoða hvað gerist þegar stofnað er til bótaskyldu þegar deiliskipulagi er breytt.

Mikilvægt er að ákvæði frumvarpsins, sbr. ákvæði gildandi laga um bótaábyrgð, verði tekin til ítarlegrar skoðunar með tilliti til hagsmuna sveitarfélaga við þróun og breytingar á skipulagi. Það er einmitt það sem er mikilvægt að ræða og ég mun koma inn á í framhaldinu.

Í frumvarpinu er í leiðinni breytt alls kyns smærri hlutum. Þó að áherslan sé fyrst og fremst á bótaregluna og breytingar þar á er ákvæðinu einnig breytt um óverulegar breytingar á deiliskipulag og grenndarkynningu, skipun varamanna í svæðisskipulagsnefndir, tímafrestur til tilkynninga um endurskoðun svæðisskipulags og aðalskipulags og í kjölfar sveitarstjórnarkosninga um lengingu tímafresta. Í andsvörum áðan gerði ég að umtalsefni mínu tímafresti til breytinga á aðalskipulagi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Eins og ég kom inn á í því andsvari við hv. þm. Árna Pál Árnason sat ég í skipulagsnefnd stórs sveitarfélags úti á landi, Akureyri nánar tiltekið, síðasta kjörtímabil sveitarstjórnarinnar frá 2010.

Þar urðu kollsteypur í síðustu sveitarstjórnarkosningum þar sem var kosinn hreinn meiri hluti tiltölulega nýrra einstaklinga og skipulagsnefndin nánast nýskipuð utan við kannski formanninn. Þannig urðu töluverðar breytingar þar og breytingar á því pólitíska landslagi sem einkenndi bæinn áður og jafnframt breytingar á þeirri pólitísku sýn og þeirri sýn sem var ráðandi í skipulagsmálum. Í því tilfelli var reyndar engin sérstök sýn ráðandi í skipulagsmálum yfirleitt og þetta var kannski ekki til vandræða. En ég tel alveg fullljóst að 12 mánuðir eru ekki nægjanlegir til að bregðast við, sérstaklega ef um svona kollsteypur er að ræða sem virðast frekar vera reglan en undantekningin, vegna þess að því miður endast menn ekki lengi í sveitarstjórnum nú orðið. Þannig er nú orðið ástatt um þetta og þarf kannski að skoða nánar á einhverjum öðrum vettvangi og í annarri umræðu en akkúrat hér um þessi lög. En alltjent er 12 mánaða fresturinn mögulega of stuttur.

Í skipulagsnefndinni sem ég hef setið í á Akureyri hef ég orðið margs áskynja og margs vísari. Það skiptir eðlilega máli í þessu samhengi, þ.e. reynsla sveitarstjórnarmanna eða þeirra sem setið hafa í skipulagsnefndum sveitarfélaga við framkvæmd skipulagslaga, framkvæmd skipulagssýnar og framkvæmd skipulagsmála í sveitarfélögunum.

Í þessu frumvarpi hér er verið að tala sérstaklega um bótarétt til handa fasteignarétthafa og eftir atvikum öðrum rétthöfum sem stofnast vegna gildistöku eða framkvæmda á skipulagsáætlunum. Það hefur komið fram í dómaframkvæmdum — sem er ítarlega farið yfir í frumvarpinu og greinargerð með frumvarpinu og ber að fagna því hversu vandlega er farið yfir framkvæmd dóma allt frá 1964 eða gildistöku laga 1964 um skipulagsmál, en þarna byggir auðvitað á 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins — að fasteignareigandi getur átt rétt til eignarnámsbóta eða sambærilegra bóta í fleiri tilfellum en þeim þegar eignarheimildir skipta með beinum hætti um hendur á grundvelli ákvarðana um eignarnám. Það eru fleiri aðstæður sem geta skapað bótaréttinn en aðeins sú að eignarnámi sé beitt við framkvæmd skipulagsáætlana. Það er áhugavert, einkum með tilliti til náttúruverndar og umhverfisnefndar, sem ég mun koma inn á síðar, vegna þess að við það að breyta stöðu svæða yfir í t.d. friðlýst svæði, náttúruvætti eða eitthvað slíkt skapast bótaréttur, bótaréttur til einstaklinga eða fasteignarrétthafa. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Mér virðist heilt yfir í frumvarpinu að verið sé að styrkja rétt einstaklinga, styrkja rétt fasteignarrétthafa til bóta en að sama skapi eru ekki nægjanlega tryggð réttindi sveitarfélaga eða skipulagsvaldsins á hverjum stað fyrir sig.

Meginefni frumvarpsins er breyting á ákvæðum sem fjalla um málsmeðferð Skipulagsstofnunar og varða breytingu á svæðisskipulagi miðhálendisins og ákvarðanir er varða stafrænar skipulagstillögur og hæfniskröfu til að sinna skipulagsgerð. Það skiptir líka máli í þessu samhengi að skoða í tengslum við réttarframkvæmd framkvæmd á svæðisskipulagi miðhálendisins þ.e. líka hlutverk þar sem ekki eru einungis sveitarfélög sem hafa skipulagsvald heldur einmitt stofnanir eins og Skipulagsstofnun og þá eins og uppi á hálendinu, hver sé rétthafi þar og hvernig bæturnar spila út þar.

Það sem skiptir mestu máli í því samhengi öllu saman, varðandi skipulagsmálin, er að það sem þetta frumvarp inniber og leiðir til er að það gerir mjög ríkar kröfur á sveitarfélög og skipulagsvald á hverjum stað, sérstaklega á sveitarfélög, ríkar kröfur til sýnar til lengri tíma á landi í kringum skipulag. Gerðar eru mjög ríkar kröfur um það. Þess vegna þarf að horfa á þetta allt í samhengi við nýtilkomnar reglur eða nýtilkomin lög um landskipulag og þá samhengi landskipulags, svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags. Tilfellið er að skipulagsstefna hefur að mestu leyti verið mörkuð á grundvelli aðalskipulags í tilfelli sveitarfélaga, hvert um sig, hvert í sínu horni án mikils samráðs eða samtals. Til er orðið svæðisskipulag og svæðisskipulagsnefndir sem starfa á ýmsum stöðum. Þar fer fram einhvers konar samráð en yfirleitt er það þá um helstu þættina sem oftast ríkir ákveðin samstaða um. Það er ekki mikið tekist á um heildarsýnina eða mynd á landnýtingu og skipulagsmál á svæðagrunni sem aftur ætti að upplýsa um aðalskipulag og svo deiliskipulag.

Það er einmitt á vettvangi svæðisskipulagsins sem ég tel að geti farið fram langtímastefnumörkun og langtímasýn sem er nauðsynleg og skiptir öllu máli þegar kemur að landnýtingar- og skipulagsmálum. Sú sýn á auðvitað að upplýsast síðan af heildarstefnumótun sem birtist í landskipulagi og þá er mikilvægt að það landskipulag sé mótað í góðu samráði og sátt um allt land og veiti aðhald og leiðsögn í grófum dráttum fyrir gerð svæðisskipulags. Ef svæðisskipulagssýnin er virk og vel skilgreind auðveldar það einstaka sveitarfélögum að byggja upp sterkari sýn í aðalskipulagi og þegar sterk sýn og öflug er komin fram í aðalskipulagi, sem þýðist augljóslega niður á deiliskipulag í flestum tilfellum, virðist mér í ljósi þessa frumvarps það vera eina leiðin til að tryggja í raun sveitarfélögin. Það sem við búum við í dag er að skipulagsbreytingar og skipulagssýn tekur breytingum eftir tíðaranda og sveiflast eftir tíðaranda og virðist vera, eins og kom fram í andsvörum áðan, fangi stundarhagsmuna sem stýrast af tíðaranda fyrst og fremst. Við getum horft á þetta í samhengi núna, eins og nefnt hefur verið, við turninn í Skuggahverfi. Við getum líka nefnt að á Akureyri var samþykkt í aðalskipulaginu eða í miðbæjarskipulagi 2004, ef ég man rétt, 17 hæða turn í miðbæinn. Það er þakkar vert að hann sé ekki lengur sjáanlegur og auðvitað fór hann út, en ímyndum okkur að ef einhver verktakinn hefði tekið það á sig að leggja sig eftir lóð fyrir þennan 17 hæða turn og hefði aldrei haft forsendur til að byggja hann þá væri bærinn kominn í töluvert þrönga stöðu við að semja um endurupptöku þeirrar lóðar eða endurtöku þeirrar lóðar til annarra framkvæmda, t.d. til að hrinda í framkvæmd nýrri sýn á miðbæjarskipulag sem er núna í samþykkt í sveitarstjórn á Akureyri, og er skipulag sem ég fagna mjög en sem vissulega ræðst af tíðrandanum eins og hann er núna.

Í frumvarpinu eru gefnar norrænar fyrirmyndir um skipulagsmál, ef ég má lesa aðeins upp úr frumvarpinu, með leyfi forseta, en þessi sjónarmið sem ég hef verið að lýsa byggjast á íslenskum rétti:

„… að almennar og bindandi ákvarðanir um landnotkun sem birtast í skipulagsáætlunum sem settar eru á grundvelli skipulagslaga falli í flokk almennra takmarkana á eignarráðum sem fasteignareigandi þurfi, sé annað ekki ákveðið t.d. með lögum, að þola bótalaust. Aðrar stjórnvaldsaðgerðir eða ákvarðanir en skipulagsáætlanir sem hafa áhrif á heimildir til landnýtingar falla einnig í flestum tilvikum í flokk almennra takmarkana á eignarráðum yfir fasteignum.“

Má hér nefna dæmi um valdheimildir til friðlýsingar tengdar ákvörðun náttúruverndarlaga og verndaráætlunar til að mynda um Vatnajökulsþjóðgarð.

Þetta er ákaflega mikilvægt að hafa í huga í framhaldinu. Það er ekki bara það að tíðarandinn geti leitt til metnaðarfullrar uppbyggingar, skulum við segja, og stórkarlalegra framkvæmda sem binda hendur sveitarfélaga heldur geta líka ákvæði um náttúruvernd og friðlýsingar sett skyldur á sveitarfélög eða komið bótakröfunni á sveitarfélög. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga.

Ég legg áherslu á að þessi grein um bótaskyldu leggur í raun ríkar skyldur á sveitarfélögin, styrkingu á langtímasýn í landnýtingu og skipulagi til að standa gegn valdi verktaka og afli þeirra sem gæta hagsmuna sinna hverju sinni. Það þarf einhvern veginn að hindra þrýsting þeirra til að móta skipulag byggða í landinu, hindra að þeir geti tryggt sér lóðir sem standi svo auðar jafnvel til langs tíma og svo ef einhverju á að breyta verða sveitarfélögin bótaskyld. Til dæmis ef sveitarfélögin mundu taka upp á því að fara að vernda eða friðlýsa svæði sem þykja núna orðin áhugaverð frá náttúrufarslegu tilliti eða jafnvel til uppbyggingar ferðaþjónustu eða eitthvað slíkt. Það er mjög mikilvægt að af þessu sé undið og það tryggist í gegnum sterka sýn og langtímasýn í landnýtingu. Mikill kostnaður getur fallið á sveitarfélög við að vinda ofan af einhvers konar fyrri skipulagsslysum og þessi lög og þetta frumvarp hjálpar ekki nægjanlega til við að vernda sveitarfélögin. Í tilfelli sveitarfélaganna og í tilfelli þessa frumvarps þarf að tryggja betur, og ég hvet umhverfis- og samgöngunefnd til að skoða það mjög vandlega, að bótaréttur virki í báðar áttir.

Ég fagnaði ákvæðum um styttingu frests í eitt ár varðandi dagsektir í staðinn fyrir tvö ár. Það er mjög mikilvægt að færa það vald til sveitarfélaganna að þau geti farið að innheimta dagsektir mun fyrr en ella af svæðum sem ekki er verið að nýta eða af svæðum sem ekki er verið að hefja framkvæmdir á. Það er einn liður í því að tryggja að blindir blettir í skipulagi eða „planning blind spots“, eins og það er kallað upp á enskuna, geti ekki staðið um aldur og ævi nánast þangað til einhver verktaki sem á lóðina sér hag því að fara loksins að byggja á henni og ef einhver ætlar að breyta því verður sveitarfélagið bótaskylt, það gengur ekki upp. Þarna er ákvæði sem tel að sé mjög gott um að breyta styttingu frests í dagsektir um eitt ár til að hjálpa sveitarfélögunum að sækja rétt sinn en mikilvægt er að bótarétturinn gangi í báðar áttir.

Í annan stað vildi ég beina því til umhverfis- og samgöngunefndar, sem mun fjalla um þetta frumvarp í kjölfar 1. umr. hér, að skoða vandlega þær sænsku fyrirmyndir sem skilgreindar eru og skilgreina betur en íslensk löggjöf gerir þennan bótarétt í báðum áttum, sem við þurfum að tryggja. Það tel ég mikilvægt að nefndin skoði mjög vandlega.

Annars er þetta frumvarp mjög vandað og ítarlegt í alla staði og sérstaklega greinargerðin sem með því fylgir. Ég fagna einkum þeirri vísan til dómafordæmis sem rökstuðningurinn byggir á. Það gefur okkur mikil færi á því að rýna forsendur og sýn sem liggur til grundvallar frumvarpinu og það er það sem ég hvet nefndina til að skoða mjög vandlega, til að átta sig á hvaða sýn það er sem leiðir áfram þær hugmyndir sem hér birtast í sérstökum breytingartillögum við einstakar greinar skipulagslaganna frá 2010. En um leið og ég segi að þetta sé hið besta mál að mörgu leyti árétta ég að tryggja þarf sveitarfélögunum öflugri tæki til að sækja bótaréttinn í báðar áttir þ.e. að bótarétturinn gangi í báðar áttir. Hitt er að samhliða svona frumvarpsframlagningu þarf að skoða mjög vandlega hvernig sveitarfélög geta á sameiginlegum grunni svæðisskipulaga mótað langtímasýn í landnýtingu og skipulagi sem er í raun eina alvörutækið sem gefur sveitarfélögunum færi til að vernda sig gagnvart óhóflegum bótakröfum fasteignarétthafa, sem hafa yfirleitt tryggt sig í gegnum þrýsting og völd sem þeir hafa oft og tíðum yfir fulltrúum skipulagsnefndar á hverjum stað, og ég get vitnað um fjölmörg dæmi þar um, og fá síðan bætur út á það. Ég legg þetta fram í umræðuna hér.