143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin töluvert ítarleg umræða um þessa breytingu á skipulagslögum, á lögum sem í raunveruleikanum eru nýleg, en það vekur athygli að þegar gengið var frá málinu á sínum tíma var bótarétturinn skilinn eftir, þ.e. menn höfðu fengið athugasemdir um það og þingið afgreiddi málið en beindi því til ráðuneytisins að laga þennan kafla. Það er til fyrirmyndar að það sé þá gert núna. Mér finnst það hafa komið ágætlega fram í umræðunni að það er ágætlega staðið að þessu frumvarpi og reynt að draga fram og leysa þau mál sem þurfti að skýra enn frekar eftir samþykkt frumvarpsins á sínum tíma. Hér kemur fram hvert erindið er.

Hv. þingmaður segist sitja sjálfur í skipulagsnefnd og ég heyri að menn hafa verið að velta fyrir sér þessum frestum sem verða við kosningar til að endurskoða skipulag, talað um að 12 mánuðir séu of lítið. Ég spyr þingmanninn: Hvað væri eðlilegur tími? Fjögur ár í skipulagsmálum eru mjög stuttur tími. Kannski eru menn þá rétt að ljúka skipulagi þegar skipt er um stjórn. Mig langar aðeins að heyra skoðun hans á þessu atriði og síðan þeim kröfum sem koma hér fram um stafrænt skipulag, kortagrunn annars vegar og svæðis- og aðalskipulag hins vegar þar sem tímafresturinn er gefinn alveg fram til ársins 2020 og á deiliskipulagið til 2025. Hefði þetta ekki mátt koma fyrr, eru menn raunverulega ekki komnir með þá möguleika að taka þetta upp mun fyrr en þetta? Hindrar kostnaðurinn það að þetta komi fyrr? Það er gríðarlegt hagræði að því að fá þetta í stafrænu formi og það er líka gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa og alla þá sem vilja fara yfir skipulagið (Forseti hringir.) og gagnrýna það að það sé aðgengilegt á netinu.