143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður getur í raunveruleikanum nánast skoðað lóðina heima hjá sér á vefjum eins og Google og jafnvel ja.is hefði maður haldið að það væri hægt að ganga betur frá. Það er komið kerfi sem heldur utan um gerð fasteigna og annað slíkt í gagnagrunnum þannig að menn hefðu getað tekið þetta skref örlítið fyrr.

Þá kemur að því sem hv. þingmaður nefndi, að smærri sveitarfélög hafa hugsanlega ekki efni á þessu. Verða menn kannski að setja einhverjar reglur um að menn vinni saman þannig að lagaumhverfið sé ekki miðað við það að hér séu fámenn sveitarfélög, jafnvel með gríðarlega stórt land, sem ráða tæpast við að sinna því hlutverki að vinna skipulagsvinnu o.s.frv.? Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á því. Ég veit að hann sagði fyrr í umræðunni um málið á undan að hann væri ekki hlynntur lögbindingu á samningum sveitarfélaganna en á sama tíma er hann hlynntur samstarfi sveitarfélaga. Það má formgera með einhverjum hætti. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar?

Það vakti athygli mína þegar ég var að fara yfir þetta að það er verið að skerpa á ýmsum smærri atriðum. Það var til dæmis talað um hæfiskröfur þeirra sem sinna skipulagsgerð. Mig langar að heyra skoðun hans á því. Hefur það komið fram að það hafi skort? Ég átta mig ekki alveg á því. Er það ekki kostur að mörgu leyti að ólíkir aðilar komi að skipulagsvinnu þó að auðvitað þurfi að tryggja að það sé faglega unnið?

Hið sama gildir um varamenn í svæðisskipulagsnefnd. Það eru sex meginatriði í þessu frumvarpi. Þó að langstærsta málið sé bótamálið kallar meðal annars þetta með varamenn í svæðisskipulagsnefnd á skoðun. (Forseti hringir.) Það hefur þá væntanlega orðið svo mikil endurnýjun að menn hafi ekki haft heimild til að endurnýja nefndir án formlegra varamanna? Ég átta mig ekki alveg á þessu.