143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Vinna við rammaáætlun á sér langa sögu og það var árið 1999 sem fyrsta verkefnisstjórnin var sett á laggirnar og vann að fyrsta áfanga rammaáætlunar. Síðan var það á árinu 2007 að annar áfangi fór af stað og sú verkefnisstjórn skilaði niðurstöðum sínum á árinu 2011. Lögin um rammaáætlun, sem hv. þm. Kristján L. Möller fór yfir hér áðan, voru samþykkt samhljóða á árinu 2011 og þar með var ramminn og ferillinn kominn í kringum það hvernig afgreiða skyldi þingsályktunartillöguna. Hún fór í umsagnarferli. Samkvæmt lögunum átti tillagan að fara í umsagnarferli og það var gert, síðan átti hún að berast aftur til iðnaðaráðuneytisins sem í samvinnu við umhverfisráðuneytið færi yfir umsagnirnar og legði tillöguna síðan fram. Þetta var gert.

Ég var á þeim tíma, þegar vinna þurfti úr umsögnunum og útbúa þingsályktunartillöguna til þingsins, iðnaðarráðherra og tók þátt í þessu ferli í náinni samvinnu við umhverfisráðherra. Tillagan var útbúin og sett fram á Alþingi og fyrir henni var mælt. Hún var þá sett í þáverandi iðnaðarnefnd. Ekki náðist að afgreiða málið á því þingi og fór þetta aftur af stað. Þá hafði verið búið að breyta ráðuneytunum og hlutverkunum. Var það umhverfis- og auðlindaráðherra sem mælti fyrir málinu örlítið breyttu í samræmi við þann tíma sem hafði liðið frá því þingsályktunartillagan var unnin. Tillagan fór síðan fyrir umhverfis- og samgöngunefnd.

Virðulegi forseti. Nú hefur hæstv. ráðherra beðið um að þessi tillaga fari til atvinnuveganefndar. Það kemur mér satt að segja á óvart. Ég hefði haldið að alveg eins og síðasta þingsályktunartillaga ætti þessi tillaga að fara til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég vona að hæstv. forseti fari yfir það og kanni hvort það sé ekki eðlilegri máti.

Mig langar að rifja aðeins upp hina sex verkþætti í þingsályktunartillögunni sem var samþykkt hér á síðasta þingi. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar frá þeim tíma eru þessir sex verkþættir raktir. Mér finnst rétt að minna á hvaða ferill er að baki þessari niðurstöðu. Tilgangurinn var auðvitað, og er og á að vera, að finna sátt meðal þjóðarinnar um hvaða svæði megi nýta og hvaða svæði eigi að vernda. Svo erum við með nokkur svæði sem þarf að skoða mun betur. Um þetta þarf að vera sátt. Þess vegna þarf að vanda til verksins. Það má flokka þennan feril í sex verkþætti.

Fyrst var það þannig að verkefnisstjórnin tók ákvarðanir um verklag við vinnuna. Þar störfuðu fulltrúar ráðherra og ýmissa stjórnsýslustofnana auk fulltrúa frá orkuiðnaðinum og náttúruverndarsamtökunum. Þarna voru alls 12 manns. Verkefnisstjórnin hélt fjölda funda um land allt til að kynna verkefnið og leita viðhorfa fólks og hagsmunasamtaka, bæði við upphaf vinnunnar og síðan reglulega á verktíma verkefnisstjórnarinnar. Annar verkþáttur fór síðan fram í faghópunum fjórum. Þar störfuðu sérfræðingar á hverju sviði fyrir sig í samráði við verkefnisstjórn. Þar sátu formenn faghópanna. Verkefni faghópanna var að raða innbyrðis þeim kostum sem til athugunar voru frá faglegum forsendum í hverjum hópi. Í lok þeirrar vinnu vorið 2010 var gefin út sérstök skýrsla, niðurstöður faghópa, kynningar og umsagnarferli verkefnisstjórnar og þær síðan settar í umsagnarferli með fundahöldum víða um land þar sem kallað var eftir athugasemdum og skriflegum umsögnum. Næsti áfangi fór meðal annars fram á grundvelli þeirrar umræðu, athugasemda, ábendinga og leiðbeininga. Bæði umsagnir og viðbrögð við þeim lágu á netinu þannig að hægt var að fylgjast mjög vel með þessu.

Síðan er það þriðji verkþáttur sem fór fram í verkefnisstjórn og helsta viðfangsefni verkefnisstjórnarinnar var að stilla saman röðunarniðurstöðum faghópa með tiltekinni aðferðafræði þannig að úr fengist ein heildarröðun. Fjórði verkþátturinn fólst í að smíða drög að tillögu til þingsályktunar með fyrstu flokkun þeirra kosta sem áður hafði verið raðað.

Áhöld voru um það hver ætti að annast þetta verk. Innan verkefnisstjórnarinnar munu sumir fulltrúanna hafa talið að gerð slíkra draga um flokkun kosta væri á verksviði verkefnisstjórnarinnar sem slíkrar. Fram kom hjá formanni verkefnisstjórnarinnar á fundi nefndarinnar að hann teldi hvorki erindisbréf stjórnarinnar né samsetningu hennar gefa tilefni til slíkrar túlkunar. Þannig að verkþátturinn var falinn fimm manna hópi, formanni verkefnisstjórnarinnar og fagstjórunum fjórum. Þau unnu síðan þessa röðun sem stillt var upp í þingsályktunartillögunni. Það var einmitt fimmti verkþátturinn sem fólst í því að smíða tillöguna sjálfa sem síðan fór í umsagnarferlið. Forsendur við þennan verkþátt voru niðurstöðurnar. Niðurstaðan varð sú, þegar búið var að fara með þetta í gegnum allar umsagnirnar, að tillagan var samhljóða drögunum, þ.e. drögunum sem komu frá formannahópnum, um 61 kost, en lagt var til að sex kostir á tveimur svæðum færu í biðflokk meðan aflað væri um þá frekari upplýsinga. Síðan var sjötti þátturinn þegar þingsályktunartillagan kemur til umfjöllunar í þinginu.

Þessir sex virkjunarkostir sem höfðu verið í nýtingarflokki — og það var þannig að það komu á þriðja hundrað umsagnir, þær voru teknar frá þar sem var eitthvað nýtt sem verkefnisstjórnin hafði ekki unnið með áður. Í anda laganna um rammaáætlun og allrar þeirrar vinnu sem var búin að vera í mörg ár þótti ekki boðlegt að það væru síðan stjórnmálamenn sem tækju afstöðu til þessara nýju upplýsinga, heldur yrðu þessir sex virkjunarkostir teknir í biðflokk á meðan verið væri að kanna málið. Einnig var á það bent og verkefnisstjórninni var sérstaklega falið að fara líka yfir tvær aðrar virkjanir í biðflokki þar sem borist höfðu nýjar upplýsingar sem verkefnisstjórnin hafði ekki farið yfir.

Nú hefur verkefnisstjórnin einmitt gert þetta, farið að því sem henni var falið að gera og raðar nú efsta virkjunarkostinum í Þjórsá, tekur hann úr biðflokki og raðar honum í orkunýtingarflokk og færir fyrir því rök og undirbýr þá ákvörðun sína ágætlega. En hinir kostirnir, enn á eftir að fara betur yfir þá og verkefnisstjórnin þarf að gefa sér tíma til þess.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að verkefnisstjórnin tekur sér tíma, vegna þess að það er ekki svo að við séum í einhverju kapphlaupi hér, heldur eigum við einmitt að taka okkur tíma og vanda vel undirbúning að tillögugerðinni eins og mér sýnist að hér hafi verið gert.