143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég sé mig tilneydda til þess, áður en ég hef hér efnislega umræðu um þingsályktunartillögu þá sem hér er til umræðu, að gera mjög alvarlega athugasemd við þá tillögu hæstv. ráðherra að tillagan fari til úrvinnslu atvinnuveganefndar. Ég heyri ekki betur en það sé gjörsamlega órökstutt. Þarna er í raun og veru tvennt sem ber að líta til. Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga þá staðreynd að rammaáætlun heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðuneytið og hins vegar þá staðreynd að umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað ítrekað um rammaáætlun á þessu þingi, forsendur og ýmis álitamál. Hún hefur fengið til sín gesti oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, á opna fundi og lokaða fundi o.s.frv. Þannig að tillaga ráðherra um að vísa málinu til atvinnuveganefndar er ekkert annað en skref sem er til þess að efna til ófriðar um þetta mál.

Ég get haft ýmsar skoðanir efnislega á því sem hér er lagt fram, á innihaldi og efni þessarar þingsályktunartillögu. Það má þó um hana segja að hún er byggð á þeim lögum sem við höfum komið okkur saman um hér á Alþingi og þeim ferlum sem við höfum komið okkur saman um. Þess vegna hefði maður haldið að hæstv. ráðherra væri umhugað um að framvindan væri í sæmilegri sátt við þingið og við nefndir og við stjórnarandstöðu.

Hvaða tilefni er, virðulegur forseti, til þess að efna til ófriðar um þetta, um það hvert á að vísa málinu? Það er algjörlega óskiljanlegt. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt skýringar á því. Ég geri það formlega að tillögu minni hér að tillagan fari til umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni fyrri umr. Ég er nú ekki svo vel stemmd í augnablikinu hér að gera ráð fyrir að um misskilning sé að ræða. En við skulum vona það, leyfa hæstv. ráðherra að njóta vafans, hann hafi kannski bara ruglast. Hann er nú með fleiri en eitt embætti að sinna, það kemur nú meira að segja fyrir endrum og sinnum hjá hæstv. forseta að kynna ráðherrann til sögunnar sem atvinnuvegaráðherra þegar hann er að svara spurningum sem bornar eru undir hann sem umhverfisráðherra og öfugt. Þannig að kannski var þetta bara misskilningur, að verið er að vísa málum áfram fyrir einhverja handvömm, af því að fólk er ekki alveg með á nótunum um að um tvær nefndir er að ræða.

Í þingsköpum stendur hér í 13. gr., með leyfi forseta:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.“

Algjörlega sambærilegur texti er í forsetaúrskurði um umhverfis- og auðlindaráðuneytið og þar að auki er þar rætt um rammaáætlun, enda er um að ræða þingsályktun sem hér er breytingartillaga um sem heitir þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Virðulegur forseti. Hér er verið að snúa öllu á haus. Ég spyr enn og aftur: Hvað er það sem kallar á það að efna til ófriðar á þessum tímapunkti? Hvað er það sem kallar á það? Ég tel að það sé algjörlega óklárað í þessari umræðu að leiða það til lykta.

Ég verð að segja að ég var stemmd í þessa umræðu þannig að hér mundum við takast á um efnislegt innihald tillögunnar og þann rökstuðning sem að baki henni liggur, en ekki um málsmeðferð. Hér er verið að snúa því á haus og þar með varpa skugga á það sem ég hefði haldið að ráðherranum væri í mun að umræðan færi að snúast um á þessum tímapunkti. Það er ekki eins og ráðherrann hafi endilega farið með löndum í umgengni sinni við rammaáætlun hingað til. Það er ekki eins og hann hafi verið mikill friðarins maður í því. (Gripið fram í: Onei.) Við getum rætt hér um totutillöguna frægu og draumana um Norðlingaölduveitu og frosnu veitingarnar í Árnesi, boðsbréfin þar sem allir áttu að koma til að undirrita friðlýsingu stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum, sneypulegan viðsnúning hæstv. umhverfisráðherra hér undir þrýstingi frá hæstv. ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Það gerðist bara á dagsparti hér í sumar að snúa þurfti þessu við. Það þurfti að snúa því við allt í einu að færa sig frá því að friðlýsa og yfir í það að gera það bara alls ekki, síðan að búa til þá furðulegustu friðlýsingartillögu sem nokkru sinni hefur sést, hún er eins og einhver bastarður, gengur undir heitinu „totutillaga Sigurðar Inga“. Þá hefði maður kannski vonað að í ljósi þess að hér er tillaga sem leggur til flutning á einum kosti, einni virkjunarhugmynd, úr biðflokki í nýtingarflokk, einni af sex sem hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á að skoðun yrði flýtt á fljótlega eftir kosningar. Hann vildi drífa þessa skoðun af og óskaði eftir því að tillögur verkefnisstjórnar um þá kosti mundu liggja fyrir ekki síðar en 15. febrúar 2014. Þetta er tillagan. Þetta er einn kostur. Þetta er einn kostur af sex sem átti að flytja. Hér er nú meira að segja greinargerð sem fylgir með sem ágætt fylgiskjal. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Hvað virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár snerti höfðu komið fram nýjar upplýsingar í umsagnarferli 2. áfanga rammaáætlunar, þannig að talið var nauðsynlegt að endurmeta áhrif þessara virkjana á laxfiska í Þjórsá.“

Hæstv. umhverfisráðherra, og allnokkrir fleiri þeirra sem nú skipa þingflokka stjórnarflokkanna, kallaði þetta á sínum tíma pólitísk fingraför. Þetta sem núna er sett bara af vinsemd og virðingu sem fylgiskjal við tillögu sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir. Þá hugsa menn með sér: Guð láti gott á vita. Nú eru menn bara farnir að horfast í augu við það að hér er ákveðið ferli. Við getum kannski verið ósammála einstökum skrefum í því, en þetta er ferli sem er eini mögulegi umbúnaðurinn um sáttagrundvöll í þeim erfiðu átakamálum sem við höfum horft hér ítrekað upp á undanfarin ár og áratugi.

Þannig að þegar ég leit á þessa þingsályktunartillögu hugsaði ég með mér: Það skyldi þó aldrei vera að við værum komin á þann stað að við gætum farið að feta okkur inn í það að vinna bara samkvæmt verklaginu sem við komum okkur saman um hér í þinginu, vinna bara samkvæmt því verklagi, takast svo á um röksemdir, vera sammála þeim, vera ósammála þeim, færa rök fyrir okkar máli hér í ræðustóli Alþingis og ganga svo til atkvæða eins og upplýst þing og siðað á að gera. Það hefði ég viljað sjá.

Nei, þá koma upp kunnuglegir taktar í tilþrifum hæstv. umhverfis-, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og auðlindaráðherra og dregst svona heldur að nýtingarlóðunum á vogarskálarnar. Ekki í fyrsta skipti. Nokkuð oft hefur það gerst að þessi tiltekni ráðherra, sem gegnir þessum embættum, standi frammi fyrir því að vega og meta sjónarmið og velji sjónarmið nýtingarinnar.

Þannig að þó að einhverjum kunni virðast þetta einfalt og að þetta snúist bara um verklag hér í þinginu og snúist um það hver fer með málið o.s.frv., þetta sé allt saman bara efnislegt og vinalegt, þá er hér um ræða málsmeðferðartillögu sem gjörbreytir þessari umræðu hér. Hér var í boði að vinna tillöguna áfram á efnislegum grunni í samræmi við þá málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð á þessu þingi og þann framgangsmáta, en sú sátt hefur verið rofin.