143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kann vel að vera að það þurfi að skoða einhverja einstaka þætti í lögunum. Hins vegar held ég að vandinn sé alls ekki þar akkúrat núna. Ég held að vandinn sé í raun og veru sá að það skortir á virðingu fyrir náttúrunni og umhverfismálum í þessari ríkisstjórn, vegna þess að allur vafi er túlkaður í hina áttina. Allur vafi er túlkaður á væng nýtingarinnar.

Til að mynda sú staðreynd að verndarflokkurinn frá því í janúar í fyrra er nánast afvelta. Af hverju er hann það? Það er vegna þess að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur séð til þess að það eru ekki peningar í friðlýsingar. Þá voru peningarnir ekki til. Þeir voru alls ekki til. Fyrir hvað opnar það? Það opnar fyrir að hægt sé að taka kostina aftur til skoðunar. Sniðugt. Ef maður er nýtingarsinni er það mjög sniðugt. Þá geturðu alltaf verið með einhverja hringekju og tekið aftur inn það sem var í verndarflokki af því að þú verndar ekki eins og þér ber að gera samkvæmt lögunum.

Það er náttúrlega þyngra en tárum taki að hér séum við með ríkisstjórn sem talar um það í samstarfsyfirlýsingu sinni að hún vilji tryggja að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu en á sama tíma eigum við við stórt og smátt í framsetningu og áherslum ráðherra hæstv. ríkisstjórnar sem er allt á sama vænginn. Núna síðast var það þegar hæstv. forsætisráðherra gladdist yfir tækifærunum sem fælust í hlýnun jarðar. Þá var það meira að segja svo að þegar hann ætlaði að snúa vörn í sókn og ætlaði aldeilis að vinda ofan af vandræðaganginum bjó hann til brandara, virðulegur forseti, hann bjó til brandara úr súrnun sjávar. Þetta er staðan.