143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:15]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Til umræðu er tillaga til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem er tiltölulega nýlega samþykkt. Hér er um að ræða mikið og langvarandi þrætuepli. Að mínu mati er með þessari tillögu verið að fara á skjön við ákaflega vandað ferli rammaáætlunar sem unnið hafði verið til þessa. Rammaáætlunarferlið er mjög vandað og vel útfært og kjarninn í því er mat á virkjunarkostum og þeim hugmyndum sem eru uppi um virkjanir um allt land út frá mjög mörgum þáttum. Menn nálgast málin úr ýmsum áttum í gegnum fjóra ólíka faghópa sem hafa hannað með sér mjög viðamikil kerfi til einkunnagjafar og stigamats fyrir þessi landsvæði út frá þeirri sérfræðiþekkingu sem hver hópur býr yfir. Í þessari tillögu er aftur farið fram hjá því.

Kjarninn í því og ástæða þess að við erum komin á þennan stað núna, svona skömmu eftir samþykkt rammaáætlunar, liggur augljóslega í þessum orðum:

„Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skal eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.“

Þarna liggur vandinn. Að mínu viti hefði aldrei átt að fara í gegn að þarna stæði „eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti“ vegna þess að það býður upp á það að á hverju ári og jafnvel oftar, þess vegna í hverjum mánuði, geti komið tillaga um virkjunarkosti hvar sem er og hvaðan sem er úr púllíunni.

Hugmyndin með því að hafa þetta á fjögurra ára fresti, eins og upprunalega hefur sennilega staðið til, er auðvitað sú, rétt eins og með aðalskipulag og annað, er að hver ný stjórnvöld fái á hverjum tíma tækifæri til að leggja sína sýn á málaflokkinn, en ekki að handvelja út einstaka kosti, einstaka flokka, sér til ánægju og yndisauka eða til að slá pólitískar keilur heima í héraði. Það er nefnilega það sem virðist vera í gangi hér, að slá pólitískar keilur heima í héraði.

Tillagan ber öll þess merki í þessu samhengi að um fyrir fram ákveðna niðurstöðu virðist vera að ræða. Það birtist ekki síst í þeirri tillögu að málið fari til umfjöllunar fyrir atvinnuveganefnd og komi þar af leiðandi ekki til umhverfis- og samgöngunefndar sem er eðlilegur farvegur málsins vegna þess að það er það sem ferli rammaáætlunar kveður á um.

Ég vil mótmæla því harðlega að þetta fari einungis til umsagnar í atvinnuveganefnd. Ég vil að fylgt verði, í það minnsta eins og hægt er, eins og var það sem af er orðið og eins og nú stendur, því ferli eins og það var skilgreint í rammaáætlun.

Þá langar mig til að fara aðeins efnislega yfir þessa tillögu. Tilfellið er að þrátt fyrir yfirbragð hennar, hvernig hún er látin líta út og hvernig hún er kynnt hérna, er hún fráleitt óumdeild. Þau ólíku sjónarmið sem liggja undir þeim deilum sem um þetta standa koma ekki nægjanlega skýrt fram vegna þess að ekki er farið í gegnum hið faglega ferli rammaáætlunar í vinnslu tillögunnar sem snýr að því að láta þessa ólíku faghópa koma að vinnunni. Þetta er gert með öðrum hætti.

Þetta var gert þannig að sent var út bréf, erindisbréf, í júlí 2013 til að meta ákveðna átta kosti og aðeins einn af þeim var talinn nægjanlega matstækur í þessari vinnu og markmiðið var, gagnvart Hvammsvirkjun, sem hér er komin til umræðu, að meta hvort óvissa varðandi áhrif virkjana á laxfiska hefði minnkað nægjanlega mikið til að forsendur hefðu skapast til að breyta flokkun. Þetta er nú uppleggið. Það undirstrikar enn einu sinni í mínum huga að þetta virðist frekar ákveðið fyrir fram.

Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum, var fenginn til þess að gera úttekt á fyrirliggjandi rannsóknum á laxfiskunum í Þjórsá og birtir þar ritrýnda niðurstöðu sem hægt er að lesa á vef rammaáætlunar, en samhliða átti einnig að fá nánari skýringar frá Landsvirkjun varðandi ýmsar mótvægisaðgerðir fyrir virkjunarkostinn. Hvað varðar hið fyrra, þ.e. vinnu Skúla Skúlasonar, liggur hún fyrir. Hann komst að þeirri niðurstöðu að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega mikið til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk á nýjan leik samkvæmt frumvarpinu sem ég les hér upp orðrétt, með leyfi forseta, vonandi svona eftir á.

Þetta er ekki alveg allur sannleikurinn í niðurstöðum Skúla Skúlasonar prófessors. Það er meira þar á bak við. Tilfellið er að ef niðurstöðurnar eru lesnar í heild sinni kemur líka fram að framkvæmdirnar mundu líklega leiða til útdauða laxastofna í ánni nema fyrir liggi eðli og umfang mótvægisaðgerða, en líka vissa um að hvaða marki þær virka. Landsvirkjun hefur ekki skilað nægjanlegu áliti þar um og það liggur einfaldlega ekki fyrir nægjanleg vissa um hvernig þær óljósu mótvægisaðgerðir, þær eru óljósar á þessum tímapunkti, mundu virka.

Hér er því farið með hálfsannleika um niðurstöðuna sem virðist vera eina forsendan fyrir þeirri breytingu sem nú er réttlætt. Þetta er eina forsendan sem er tíunduð, eina forsendan sem er rökstudd og hún er sögð hálf í umsögn með frumvarpinu.

Í því ljósi að hér er ekki farið alveg rétt með að mínu viti þykir mér rétt að fara yfir þær athugasemdir sem bárust nefndinni við vinnuna. Þar eru nokkur atriði talin. Það fyrsta sem ég vil nefna er það að verkefnisstjórnin, að mati nokkurra umsagnaraðila, reyndar þorra þeirra, fór ekki að lögbundnu ferli rammaáætlunar eins og ég hef bent á, þar sem engin stigagjöf og samanburður liggur til grundvallar tillögu verkefnisstjórnar. Það var ekki farið í þetta faglega ferli með ólíkum hópum og þar af leiðandi er ekki hægt að bera þetta mat saman við mat annarra kosta eins og fór fram í rammaáætlun. Það er mjög vont.

Erindisbréf verkefnisstjórnarinnar til faghóps var líka leiðandi. Ef ég vitna í erindisbréfið var eina verkefnið að meta hvort dregið hefði nægjanlega mikið úr óvissunni, hvort það væri ekki örugglega akkúrat nóg til þess að þetta slyppi nú. Og til hvers? Meta hvort þetta væri ekki örugglega akkúrat nóg til þess að unnt væri að raða einhverjum þeirra eða öllum í nýtingarflokk á nýjan leik. Þetta stendur í bréfinu. Þetta er alveg með ólíkindum. Það er alveg svart á hvítu að það er fyrirframgefið um hvað þetta snýst. Það liggur alveg fyrir. Markmiðin eru kýrskýr, eins og einhver sagði.

Aðrar athugasemdir snúa að því að ekki var farið í gegnum þetta víðtæka margháttaða faglega ferli sem ég er að reyna að lýsa; í athugasemd sem birtist í atriði fjögur telur þorri umsagnaraðila óásættanlegt að miða eingöngu við áhrif á laxfiska. Ekki er gerð tilraun til að greina á milli náttúrulegs eða manngerðs búsvæðis, samfélagsleg áhrif eru ekki tekin með og áhrif á landslag, fagurfræði og tilfinningalegt gildi eru ekkert metin, enda var það aldrei hluti af markmiðunum, aldrei hluti af upplegginu, en það tilheyrir allt hinu lögbundna ferli rammaáætlunar eins og hún er lögð upp, ferli sem á að skapa sátt um virkjun eða nýtingu. Þessi sátt er þar með rofin. Ekki var farið í gegnum þetta margháttaða ferli og sáttin er þar með rofin eins og kemur bersýnilega fram í þorra umsagna sem um málið bárust og birtist nú hér í þingsölum með því að færa á umsagnarferlið úr umhverfisnefnd yfir í atvinnuveganefnd. Sáttin er rofin. Það liggur fyrir. Það á að fara og veita skammhlaupi inn í þetta ferli allt saman. Til hvers? Jú, með það eitt að markmiði að pota eins miklu og mögulegt er í nýtingarflokk. Það er markmiðið.

Við sáum það bersýnilega þegar tillögur lágu fyrir um að nánast allur verndarflokkurinn færi til endurmats innan við ári eftir að rammaáætlun er samþykkt. Sem betur fer, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á, hélt verkefnisstjórnin haus og kúlinu, eins og maður segir á lélegri íslensku, og svaraði þessu bara efnislega og með vernduðum hætti.

Ég vil að lokum grípa niður í Viðauka 3, í bókun Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, sem var fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis í verkefnisstjórn. Hún setur sig upp á móti þessari breytingu. Hún segir, með leyfi forseta:

„Þannig eru áhrif framkvæmdanna ekki lögð til grundvallar í röðun virkjunarhugmyndarinnar. Það er grundvallarfrávik frá vinnubrögðum í fyrri tveimur áföngum rammaáætlunar.“

Hún tekur undir það sem ég hef haldið hér fram, að um sé að ræða grundvallarfrávik. Þetta skapar fordæmi fyrir aðra málsmeðferð, sem er hættulegt, og eykur hættu á að virkjunarhugmyndir sitji ekki allar við sama borð hvað varðar mat á umhverfisáhrifum. Þetta er flýtir. Þetta er skammhlaup. Þetta er frumhlaup. Þetta er slæmt. Ég fullyrði það út frá því sem ég hef hér rökstutt í minni ræðu að þetta komi til með að rjúfa sátt.