143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér erum við komin með tillögu til þingsályktunar um breytingu á fyrri þingsályktun. Það er kannski fyrsta prófmálið í sambandi við það þar sem einhverju hefur verið vísað til verkefnisstjórnar og er að endurmeta hvort það verður í biðflokki og fari aftur í nýtingarflokk. Ég heyri að menn eru ekki ýkja hræddir við þetta en það kemur í ljós að undir niðri ríkir ótti vegna fyrri athafna hæstv. ráðherra ákvarðanatöku og yfirlýsinga um vilja sem gerir mann tortrygginn varðandi akkúrat þetta mál sem ég mundi undir venjulegum kringumstæðum styðja.

Það sem mér finnst skipta miklu máli og mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns um er eftirfarandi: Málið var sett í biðflokk vegna þess að það vantaði einhverjar viðbótarrannsóknir, búið var að setja það í biðflokk og málið var búið að fara fyrir faghópana, það var búið að meta það áður. En menn mátu að þarna væru óklárar upplýsingar varðandi laxastofninn og eingöngu hann. En er þá ekki mikilvægt að reyna að halda því ferli? Annars opnum við á það að í hvert skipti sem hreyfa þarf eitthvað í hvora áttina sem er, jafnvel í biðflokk, þarf alltaf að kalla til allar fagnefndir og ferlið byrjar upp á nýtt.

Ég óttast það sem hæstv. ráðherra hefur verið að gera, þ.e. að demba bara inn alls konar athugunum og heimta að það fari allt í endurmat eða hraðmat, eins og hv. þingmaður orðaði það ágætlega. Verðum við ekki að passa okkur sjálf á því að brjóta ekki ferlið og jafnvel að hafa vit fyrir ráðherrum með því að reyna að halda okkur við það ferli sem farið var í og reyna frekar að skerpa á lögunum og túlka þau þannig að ekki verði búnar til flýtimeðferðir sem ráðherra getur tekið geðþóttaákvarðanir um?