143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég eyddi drjúgum hluta af mínum stuttu tíu mínútum áðan í að ræða atriði sem færi kannski betur að ræða undir liðnum fundarstjórn forseta, sem er tillaga hæstv. umhverfisráðherra um það hvert hann vill vísa þessu þingmáli. Ég er auðvitað mjög hugsi yfir því en eins og ég skil það þá er það í raun þingsins að taka ákvörðun um það.

Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. forseta sem leiðtoga okkar hér því að eins og ég skil hæstv. ráðherra þá er farið í 13. gr. þingskapa og lesið hvar þessi tillaga eigi helst heima og vísað í eitthvað sem heitir nýting og þar með eigi hún heima þar. Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu. Þetta er tillaga um breytingu á áður unninni tillögu sem var fullunnin hér og kláruð eftir umfjöllun — hvar? Í umhverfis- og samgöngunefnd. (Forseti hringir.) Það er stórfurðulegt (Forseti hringir.) að leggja fram tillögu til breytingar á öðru máli sem var (Forseti hringir.) fullunnið í tiltekinni þingnefnd (Forseti hringir.) og að breytingartillöguna eigi að vinna í annarri nefnd.