143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Þetta mál, sem áður heyrði undir iðnaðarráðherra en færðist svo yfir til umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytis og hefur síðan verið fjallað um í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, á augljóslega heima í umhverfis- og samgöngunefnd þótt hægt sé að festa sig í það í þessum ágætu lögum um þingsköp að undir umhverfis- og samgöngunefnd standi verndun og undir atvinnuveganefnd standi nýting. Undir hv. umhverfis- og samgöngunefnd standa líka byggðamál og eigi að síður var byggðaáætlun vísað til atvinnuveganefndar. Við höfum örugglega mörg fleiri slík dæmi þar sem ekki er alveg farið kórrétt eftir því sem stendur í þingsköpum.

Ég ítreka því tillögu sem bæði ég og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir höfum komið með. Það er langtum eðlilegast að þetta mál fari til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Annars getum við auðvitað farið að festa okkur í þetta með ýmis mál. Til að mynda þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd situr og ræðir samskipti ríkis og sveitarfélaga í kringum tónlistarskóla, sem heyra samkvæmt þessu undir hv. umhverfis- og samgöngunefnd, eigum við þá ekki að ræða það? Við sjáum að þetta er ekki skynsamlegt. Það liggur algerlega í augum uppi.