143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verður maður að passa sig á því að ætla hæstv. ráðherra ekki eitthvað en hann hefur tækifæri til að koma hingað og skýra þetta betur. Hann er hér í þinghúsinu og fylgist með umræðunni og hefur tækifæri til að vinna málinu framgang með því að skýra þetta betur út að því gefnu að hann reyni að minnsta kosti að miðla málum þannig að menn þurfi ekki fara í átök um þetta í staðinn fyrir að ræða efni máls.

Ég skora hér með á hæstv. umhverfisráðherra að leita sátta almennt í þessum málaflokki, að finna því farveg að treysta það ferli sem við höfum verið að reyna að þróa saman í langan tíma, sem er rammaáætlunarferlið. Löngu fyrir tíma þessarar ríkisstjórnar og síðustu ríkisstjórnar hafa menn verið að reyna að leiða þetta mál til lykta þannig að menn geti fundið ferli. Það eru allir sammála um að við þurfum að nýta auðlindir okkar, við viljum nýta sumar en vernda aðrar til framtíðar. Við viljum losna við að endalaust sé verið að ræða hvort hægt sé að komast hjá því að vernda þær, hleypa á fossana yfir sumartímann eða einhverjar fáránlegar hugmyndir til að komast í að nýta þær.

Við höfum næga orku og eigum að geta sótt hana og eigum að standa saman að því en við eigum líka gríðarlega mikilvægar náttúruperlur sem við þurfum að vernda og vernda til framtíðar. Það er lítill hluti sem er í ágreiningi og þá þurfum við, eins og reynt var á síðasta kjörtímabili, að finna leiðir og aðferðir til að leiða málin til lykta á farsælan hátt. Til þess var rammaáætlunin. Menn geta ásakað okkur fyrir að hafa verið með eitthvert fáránlegt ferli — og raunar var það spaugilegt þegar hæstv. ráðherra ætlaði nánast að kalla alla rammaáætlunina til baka en áttaði sig svo á því að ferlið var mjög gott. Hæstv. ráðherra sagði: Ég ætla að nýta ferlið. En þá verður hann líka að skilja að ekki er hægt að ætlast til þess að á hverjum degi sé allt endurmetið eftir hans geðþótta.