143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er heils hugar sammála hv. þingmanni um að hugmyndin var og verður að vera að lenda málinu þannig að við getum fundið þessu einhvern farveg, fundið það sem við erum sammála um og það sem þarf að leysa á annan hátt með einhverju ákveðnu formi og að formið sé búið þannig til að það sé að minnsta kosti sátt um að fara þá leið og sæta niðurstöðu. Menn hafa verið að feta þá leið og ég held að það skipti miklu máli að þróa hana í staðinn fyrir að hlaupast á brott frá henni.

Í ágreiningsmálaflokkum er það ekki þannig að menn geti slegið sér á brjóst og sagt: Ég er nýtingarsinni eða ég er friðunarsinni. Við hneigjumst kannski í aðra hvora áttina en allir vita að við þurfum að nýta ákveðinn hluta af orku okkar, af auðlindum okkar, á ýmsan hátt, hvort sem er til virkjunar, orkunýtingar, í sambandi við ferðamannaiðnað eða eitthvað annað slíkt. Á sama tíma berum við öll, trúi ég, virðingu fyrir náttúrunni og viljum vernda ákveðin svæði. Svo eru ákveðin grá svæði eða svæði sem menn hafa ólíkar skoðanir á og meta hagsmunina þannig að betra sé að virkja en að friða. Þá þurfum við að eiga verkfæri til að leysa það. Til þess er rammaáætlunin. Þess vegna get ég í sjálfu sér ekki gert athugasemd þegar verið er að plokka út, eins og sagt er, eða eins í þessu tilfelli þar sem tekin er ein virkjun. Alþingi fól verkefnisstjórninni í rauninni að skoða þá kosti frekar vegna þess að þeir settu málið í biðflokk og sögðu: Það vantar frekari rannsóknir. Ég get ekki gert athugasemd við að það sé forgangsröðunin hjá verkefnisstjórninni að skoða þá valkosti sem var beinlínis vísað af þinginu til hennar. Ég get gert athugasemdir við hvaða bréf fylgir frá ráðherra en eftir sem áður er það hugmyndin að síðan svari verkefnisstjórnin því með því að fara í frekari rannsóknir og komast að einhverri niðurstöðu eftir umsagnarferlið, eins og kemur fram í þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Þetta er hluti af þeirri leið sem ég vil sjá en þarf að þróast betur af því að menn eru greinilega að fara af sporinu til að eyðileggja hana.