143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það hvort menn vilja fara með málið í sáttaferli þá held ég að hæstv. ríkisstjórn eigi að vera ljóst að þrátt fyrir mikinn þingstyrk getur maður ekki gert það sem manni sýnist. Sem betur fer eigum við bæði stjórnarminnihluta og við eigum líka þjóð sem lætur ekki allt yfir sig ganga. Ef menn vilja kynda bálið og stefna til ófriðar áfram geta þeir reynt það. Ég ráðlegg hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn þó að víkja af þeirri braut og þiggja þá ferla sem lagt var upp með og reyna að þróa þá frekar með það að meginmarkmiði að leita leiða til að ljúka málum þannig að þau hljóti afgreiðslu, og jafnvel þótt ekki ríki sátt verði menn að minnsta kostir sáttir við ferlið og hvernig komist var að niðurstöðu.

Undir venjulegum kringumstæðum ætti auðvitað að líta á það að þegar við fáum tillögu eins og þessa fer hún í nefnd, hún kemur aftur inn í þingið og verður svo afgreidd af hv. Alþingi öllu saman. Í sjálfu sér ætti því ekki að skipta meginmáli til hvaða nefndar viðkomandi mál fer. En vegna forsögu málsins og vegna þess að málið, akkúrat þessi þingsályktunartillaga sem hér er verið að breyta, var í umhverfis- og samgöngunefnd, hún var færð yfir frá iðnaðarráðuneytinu yfir til umhverfisráðuneytis, skil ég ekki hvers vegna hæstv. umhverfisráðherra vill losna við að hún fái umfjöllun í nefndinni sem er með málaflokka hans.

Það vekur líka alltaf spurningar og tortryggni og það er það sem við upplifum hér í kvöld. Hvað liggur að baki? Rætt hefur verið um ýmsa möguleika og ef það er kannski vegna þess að það eru annir í umhverfis- og samgöngunefnd eiga menn bara að segja það, eða eitthvað slíkt. En það hefur ekki komið í ljós. Ég held að þarna sé verið að efna til ófriðar um eitthvað sem á (Forseti hringir.) að vera aukaatriði máls en er býsna mikið mál.