143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það eru óvænt og furðuleg tíðindi að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem fer með þennan málaflokk og verkefni sem hefur verið falið umhverfis- og auðlindaráðuneytinu með úrskurði um verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands, var í umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabili, skuli leggja til að málið fari nú til atvinnuveganefndar. Það er eiginlega alveg stórfurðulegt. Ég verð að segja að ég held að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, eða sá hæstv. ráðherra sem sagt er að fari með þau mál í Stjórnarráðinu, sé enn að toppa sig með þessari tillögu. Þetta er algerlega stórfurðulegt. Er þá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hættur að líta á þetta sem umhverfismál, þetta sé orðið að iðnaðarmáli og eigi að fara í atvinnuveganefnd af því að hún fer með iðnaðarmál, eða hvað? Erum við þá bara að horfa framan í það grímulaust að við séum komin þangað aftur?

Ég tel langeðlilegast að fresta þessari umræðu (Forseti hringir.) og fela þinginu að kveða upp úr um það hvort það gangi ofan í það vinnulag (Forseti hringir.) sem hér var á síðasta kjörtímabili og halda ekki öllu lengur áfram með þetta gaman nema þá að minnsta kosti að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sjái sóma sinn í að koma hingað og gera grein fyrir máli sínu.