143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að skýra frekar vísan mína í afstöðu mína til Hvammsvirkjunar þá sagði ég að ég hefði haft efasemdir um flokkun Holta- og Hvammsvirkjunar í biðflokk á sínum tíma en samt talið fullnægjandi þau rök sem fram komu, að það væri rétt varúðarinnar vegna að láta rannsóknir fara fram. Ég tel að sú afstaða mín hafi verið staðfest með niðurstöðu verkefnisstjórnar að þessu leyti, að þetta ferli henti vel til að láta fara fram rannsóknir og það að setja kosti í biðflokk þýðir ekki að verið sé að leggjast í veg nýtingar með ómálefnalegum hætti.

Að því er varðar síðan Holtavirkjunina sjálfa efnislega hef ég ekki tekið neina afstöðu til neinna nýrra gagna sem fram hafa komið þar. Ég bíð bara niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar hvað varðar Holtavirkjun og tel enga ástæðu til að hrófla við þeirri röðun í flokka sem ákveðin var í árslok 2012. Hún sýnir sig núna að vera farsæll farvegur um ákvarðanir um nýtingu í tilviki þessarar tilteknu virkjunar, Hvammsvirkjunar. Hér kemur vel rökstudd og yfirveguð tillaga frá verkefnisstjórninni og ég held að það sé miklu betri bragur á því að hafa sama hátt á með aðra virkjunarkosti sem nú eru í biðflokki, að rannsaka þá til fulls, leyfa verkefnisstjórninni að vinna sína vinnu, láta þá fagmenn sem hún kallar til verka vinna rannsóknir og skila okkur góðri niðurstöðu eins og er að gerast í þessu tilviki. Ég hlakka til að sjá það sama um Holtavirkjun, ég veit í sjálfu sér ekki í hvora áttina það verður.