143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er náttúrlega aðallega að vísa til þess að verkefnisstjórnin valdi það verklag tíma og aðstæðna vegna að leggja strax ákveðna kosti til hliðar sem hæstv. ráðherra hafði óskað eftir að hún reyndi að glíma við á þessum skamma tíma. Hún ákvað fyrir alllöngu að einbeita sér að virkjunarkostunum þremur í neðri hluta Þjórsár en komst síðan að þessari niðurstöðu og hefur þar af leiðandi skoðað stöðuna vel bæði varðandi Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun. Það finnst mér í sjálfu sér vera mikill sigur að verkefnisstjórnin staðfestir niðurstöðuna frá fyrra kjörtímabili og afgreiðslu Alþingis síðast, að það séu góð og gild efnisleg rök fyrir því að láta þá virkjunarkosti, eða náttúruna í þeim tilvikum njóta vafans og athuga það betur.

Ég varð mjög ánægður þegar ég sá röksemdafærsluna varðandi Holtavirkjun vegna þess að hún styrkir það að mínu mati til frambúðar hversu miklum hagsmunum yrði líklega fórnað a.m.k. með þessum tveimur virkjunarkostum neðst í Þjórsá, Urriðafossi og Holtavirkjun.

Varðandi Hvammsvirkjun getur maður auðvitað viðurkennt að af þessum þremur stendur hún að mörgu leyti næst því þar sem hún er efst í ánni og ofan laxastigans við Búða og uppi á þeim hluta svæðisins sem ekki var fiskgengur frá sjó áður. Það breytir hins vegar ekki því að í mörgum umsögnum koma fram mjög góð og gild rök fyrir því að hún hefði líka átt að bíða m.a. vegna þess að það hefur breytt miklu um lífríkið á svæðinu að opnast hafa búsvæði og uppeldissvæði ofan Búða með tilkomu laxastigans sem eiga sennilega sinn þátt í því að styrkja núna viðgang laxfiska í ánni, samanber t.d. metveiði í Þjórsá síðastliðið sumar þegar veiði sló öll met á seinni árum og fór yfir 10 þúsund fiska, (Forseti hringir.) sem staðfestir að hér á í hlut og er í húfi (Forseti hringir.) stærsti villti laxastofn á Íslandi.