143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur fram í máli hv. þingmanns að hann fagni fram kominni tillögu og sé í sjálfu sér efnislega sammála henni. Ég deili því með honum að fagna því að þessi tillaga sýni að verkfærið virkar, að við erum með ákveðna framvindu sem sannarlega getur farið að lögum þrátt fyrir ýmiss konar totur og djúp sem hafa verið í gangi hér að undanförnu.

Mig langar þó að vekja athygli þingmannsins á því og spyrja um vangaveltur hans í sambandi við að nú kemur fram að í erindisbréfi umhverfis- og auðlindaráðherra til verkefnisstjórnar beini ráðherrann tilmælum til verkefnisstjórnar um að hún skoði tiltekna þætti. Verkefnisstjórnin þrengir það strax niður í þessa þrjá í neðri hluta Þjórsár og skilar svo tillögunni.

Í lokaorðum greinargerðar verkefnisstjórnarinnar þar sem farið er ítarlega yfir ferlið o.s.frv., þetta er í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni, segir, með leyfi forseta: „Verkefnisstjórn leggur áherslu á að það ferli sem skilgreint er í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, byggir á tiltekinni aðferðafræði sem gengur út á röðun virkjunarkosta“ — á röðun virkjunarkosta — „út frá tilteknum viðmiðum á ólíkum fagsviðum.“ Og svo síðar: „Til að unnt sé að beita þessari aðferðafræði þarf nokkur fjöldi virkjunarkosta að vera til umfjöllunar samtímis og ekki er leyfilegt að framkvæma matið fyrr en nægjanleg gögn liggja fyrir varðandi þá virkjunarkosti sem til umfjöllunar eru.“

Það sem verkefnisstjórnin er í raun að benda ráðherranum á hér er að það gengur ekki að handpikka út einhverja tiltekna kosti og fara yfir þá staka heldur byggir aðferðafræðin alltaf á hugsuninni um röðun. Hvaða sýn hefur hv. þingmaður á þessa, mér liggur við að segja ábendingu eða áminningu verkefnisstjórnarinnar?