143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki nóg í mínum huga að beiðni um öflun upplýsinga hafi verið send skrifstofu þingsins. Þær upplýsingar þurfa að liggja fyrir í þessari umræðu vegna þess að það er innlegg í umræðuna hvert á að vísa því máli sem hér er til umfjöllunar. Við þurfum að fá úr því skorið hvort þessi fordæmi séu til og hver þau þá kunni að vera. Ég hef ekki það mikla þingreynslu að ég muni þetta eða kunni slík dæmi en það kann vel að vera að þau séu til. Þá þurfum við að fá þau fram þannig að ég tel þetta mikilvægt.

Í annan stað vil ég líka nefna að það er ekki góður bragur á þessu sem er að gerast hér, að það koma fram skýrslur, miklar að vöxtum, og svo á að fara fram vitræn umræða í þinginu strax daginn eftir. Það gerðist fyrir ekki löngu síðan í skýrslu tengdri Evrópusambandsumræðunni. (Forseti hringir.) Menn eru ekki búnir að fara í gegnum fleiri hundruð blaðsíður, ég tala nú ekki um fleiri þúsundir eins og í þessu tilfelli. Forseti Alþingis verður að taka sér tak í því að skipuleggja þingstörfin þannig að hægt sé (Forseti hringir.) að láta fara fram einhverja vitræna umræðu.