143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki viðunandi svar að einhver ósk hafi verið send skrifstofu þingsins um að taka saman greinargerð. Auðvitað þurfum við ekkert á þessari greinargerð að halda ef virðulegur forseti og hæstv. ráðherra sjá að sér og taka hina skynsamlegu afstöðu sem auðvitað er öllum ljós sem eru búnir að setja sig inn í málið. Hér hefur verið unnið með rammaáætlun sem hefur verið á forræði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, hún hefur verið unnin í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem þegar hefur unnið talsvert í málinu í vetur. Það er augljóst ef við horfum á málið út frá skynseminni hvert það á að fara. Ekkert í þingsköpum hindrar að þingið geti samþykkt það og ekki boðlegur málflutningur að festa sig þar við eitthvert eitt orð.

Við getum beðið eftir greinargerð, sem ég veit ekki hvað tekur marga daga, áður en við sendum málið til nefndar. Það liggur fyrir að við erum búin að óska eftir því að fá hana áður en það er samþykkt hvert málið á að fara til nefndar. Við getum líka tekið skynsamlega afstöðu og sent málið til þeirrar nefndar sem hingað til hefur verið með það. Það eru (Forseti hringir.) valkostir forseta.