143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel alveg einboðið að við förum ekki að afgreiða þetta mál til nefndar fyrr en það liggur fyrir hvort einhver fordæmi eru fyrir svona loftfimleikum í heimvísun mála til nefnda.

Hér var ágætisfriður um þingstörfin í dag og búið að ákveða að hafa nefndarfund eldsnemma í fyrramálið. Ég er einn af þeim sem á að vera mættur á fund í fyrramálið og á eftir að lesa eitthvað meira í þessum doðröntum sem okkar bíða.

Lykilatriðið er að forseti getur ekki gengið fram með þessum hætti. Ef hér á að halda áfram fundi verður að gera hlé fyrir þingflokksformannafund, fara yfir þessi mál og ræða þau í þaula. Þá verður að finna leiðir í þessu máli og ég skil ekki af hverju stjórnarmeirihlutinn hefur svona gaman af því að koma hér öllu í bál og brand, (Forseti hringir.) efnir til átaka aftur og aftur algjörlega að ástæðulausu.