143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem taka undir það að við sem eigum að mæta til fundar snemma í fyrramálið og spyrja þar rannsóknarnefnd út úr tæplega 2 þús. síðna skýrslu höfum nokkuð ríkar ástæður til að óska eftir því að ekki verði fundað hér öllu lengur í kvöld.

Þegar svo við bætist að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra henti þessari sprengju inn í umræðurnar, vonandi í fljótræði, að hann vilji vísa sinni eigin tillögu frá sér, út úr sínum málaflokki, yfir í aðra þingnefnd sem er svo fáheyrt að ég hef varla upplifað að einn ráðherra sem sagt er að fari með tiltekinn málaflokk gengisfelli hann svo vísvitandi … (Gripið fram í: Við getum tekið hann í efnahags- og viðskiptanefnd.) Já, við getum þá alveg eins farið með málið inn í efnahags- og viðskiptanefnd eða menntamálanefnd eða hvert sem er.

Nei, ég legg til að virðulegur forseti taki mark á vel rökstuddum óskum um að við förum að segja þetta gott í kvöld eða geri að minnsta kosti hlé og ræði við þingflokksformenn þannig að við vitum eitthvað hvar við stöndum í þessum efnum. Það er alllöng mælendaskrá eftir og ég held að það fari (Forseti hringir.) að nálgast mikla þrjósku að halda þessu lengur áfram.